Sprengjuhótanir bárust nokkrum stofnunum og vinnustöðum í Reykjanesbæ með tölvupósti í morgun, þar meðal í Ráðhús Reykjanesbæjar og leikskólann Völl.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að málið sé til rannsóknar. Verið sé að rannsaka efni tölvupóstanna og hvaðan þeir koma.
Í samtali við mbl.is í morgun sagði Sölvi Rafn Rafnsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, að sprengjuhótunin hefði ekki verið talin trúverðug. Starfsmenn Reykjanesbæjar tóku engu að síður ákvörðun um að rýma Ráðhúsið vegna hótunarinnar.
Leikskólinn Völlur var hins vegar ekki rýmdur, en í tölvupósti sem sendur var til foreldra og forráðamanna barna á leikskólanum kemur fram að lögregla hafi ekki talið þörf á rýmingu. Í póstinum kom jafnframt fram að stjórnendur leikskólans væru í góðum samskiptum við lögreglu sem myndi leiðbeina þeim í málinu.
Sprengjuleitarhundur frá sérsveit ríkislögreglustjóra var fenginn til að leita að sprengju í Ráðhúsinu en að sögn Sölva Rafn fannst þar ekkert grunsamlegt.