Um eitt þúsund atvinnuleyfi verið gefin út hérlendis til um 810 flóttamanna frá Úkraínu, samkvæmt þeim upplýsingum sem Morgunblaðið hefur fengið. Flestir, 687, eru á höfuðborgarsvæðinu. Gylfi Þór Þorsteinsson, sem hefur stýrt móttöku úkraínskra flóttamanna, segir að þótt stór hluti fullorðinna flóttamanna hafi fengið störf og geti framfleytt sér séu störfin ekki öll í samræmi við menntun, þekkingu og reynslu umsækjenda.
Tafsamt getur verið að afla atvinnuleyfa fyrir fólk með sérhæfða menntun og verða margir að sætta sig við annars konar störf meðan beðið er úrlausnar. Gylfi Þór segir verið að skoða hvernig hægt sé að greiða fyrir þessum málum.
Nær 600 umsækjenda um vernd hér á landi eru börn á skólaaldri og reyndist fyrst í stað nokkuð torsótt að koma þeim öllum í skóla miðað við þarfir og dvalarstað. Mjög hefur hins vegar ræst úr því að sögn Gylfa Þórs og hafa sveitarfélögin sem reka skólana staðið fyrir átaki til að geta tekið á móti öllum börnunum.
„Það hefur verið og er enn mikill skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eins og allir vita,“ segir Gylfi Þór. Það hefur því verið talsverður höfuðverkur að anna eftirspurn flóttafólksins eftir viðunandi húsnæði. Auk Úkraínumanna hefur flóttafólk komið frá mörgum öðrum löndum og voru 5.000 flóttamenn í húsnæðisleit í fyrra. Hann segir að reglan hafi verið að bjóða upp á tveggja vikna skammtímaúrræði, en það hafi verið lengt í átta vikur. Eftir þann tíma verða flóttamenn að hafa útvegað sér húsnæði til lengri tíma á eigin vegum eða leita eftir aðstoð félagsþjónustu einstakra sveitarfélaga.
Gylfi Þór segir að margar úkraínskar fjölskyldur hafi brugðið á það ráð að leigja saman íbúðir til að byrja með þótt þröngt sé um þær við slíkar aðstæður. Mörgum finnist allt betra en að vera heima í stríðsátökunum.
„Það hafa verið gerðir samningar við sjö sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Samningarnir gilda um flóttafólk hvaðan sem það kemur. Um er að ræða Akureyri, Árborg, Hafnarfjörð, Hornafjörð, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg og nú síðast við Múlaþing sem skuldbindur sig til að taka á móti 40 flóttamönnum. Í dag bætast svo Vestmannaeyjar við, sem ætla að taka við allt að 30 manns.
Sigríður segir stefnt að undirritun samninga við fleiri sveitarfélög á næstunni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Hún segir enga sérstaka samninga hafi verið gerða vegna flóttafólksins frá Úkraínu. „Markmið samræmdrar móttöku flóttafólks er einmitt að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að,“ segir hún.
Sigríður segir að samkomulagið við sveitarfélögin samanstandi af samningi, kröfulýsingu og kostnaðarlíkani. Í samræmdu móttökunni sé lögð áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi. Vinnumálastofnun sé falið að sjá flóttafólki fyrir íslenskukennslu- og samfélagsfræðslu. Fjölmenningarsetur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag, geri flóttafólki tilboð um móttökusveitarfélag og tengi þannig saman flóttafólk og sveitarfélög. Móttökusveitarfélög fái einnig faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf frá Fjölmenningarsetri.
„Samningurinn stendur öllum sveitarfélögum til boða og þau ákveða sjálf hversu mörgum flóttamönnum þau taka á móti samkvæmt honum,“ segir Sigríður.
Miðstöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu er starfrækt í húsnæði Reykjavíkurborgar á Aflagranda 40. Þar er opið alla þriðjudaga á milli kl. 18 og 20. Sveinn Rúnar Sigurðsson læknir, sem forgöngu hefur haft um aðstoð við Úkraínumenn, segir að þar séu í boði námskeið af ýmsu tagi sem Úkraínumenn annist sjálfir, hver á sínu sérsviði. Þar er einnig vettvangur fyrir fólkið til að bera saman bækur sínar og afla upplýsinga. Þetta er nokkurs konar félagsmiðstöð þeirra. „Við stofnuðum samtök 3. mars í fyrra sem við köllum Flottafolk. Það er svolítill orðaleikur. Við erum að leggja áherslu á hvað þetta fólk er mikil lyftistöng fyrir þjóðfélagið hér sem sárvantar fleiri vinnandi hendur,“ segir Sveinn Rúnar.
Sveinn Rúnar segir að í fyrra hafi athvörf og mötuneyti fyrir Úkraínumenn verið á ýmsum stöðum í Reykjavík, en auk miðstöðvarinnar á Aflagranda sé nú aðstaða í Neskirkju þar sem er móttaka á fatnaði og búnaði fyrir flóttafólkið.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.