Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í miðbæ Reykjavíkur laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Tveir voru handteknir og gista þeir fangageymslu lögreglu.
Á svipuðum tíma var óskað eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja mann úr verslun í hverfi 105, sem hún og gerði, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 58 mál voru skráð frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Um hálftólfleytið í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 104 í Reykjavík. Meiðsli voru minniháttar og var einn handtekinn.
Lögreglunni á Vínlandsleið barst tilkynning um líkamsárás á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ekki er vitað um meiðsli.
Alls voru fimm ökumenn stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Tveir voru ekki með ökuréttindi og einnig voru menn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.