Skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli á Akureyri var lokað á hádegi í dag og ekki er búist við opnun á morgun sökum veðurs. Margir hafa lagt leið sína á Akureyri þar sem vetrarfrí er í mörgum skólum á höfuðborgarsvæðinu.
Um 2500 manns sóttu skíðasvæðið í gær og var það stærsti dagur vetrarins, að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli.
Stemningin í gær hafi verið virkilega góð og því sé leiðinlegt að geta ekki haft opið alla helgina, en svæðið var opið á milli klukkan tíu og tólf í dag.
„Það er ótrúlega margt fólk að sunnan í bænum. Það var gott veður í gær, en það er lægð í dag og á morgun, þannig að ég sé ekki fram á að við náum að opna á morgun, því miður. Vindurinn er bara of sterkur,” segir Brynjar í samtali við mbl.is.
Spurður hvort staðan verði endurmetin í fyrramálið, svarar Brynjar játandi en hann á þó ekki von á að skíðasvæðið verði opnað.
„Það er spáð 25 metrum á sekúndu og miðað við allar veðurspár myndi ég stilla líkunum á því að við opnum á morgun í lágmark.“