Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir að í dag muni hann ásamt hópi fagfólks kanna aðstæður umhverfis verksmiðju fyrirtækisins í Tálknafirði.
Gengið verður umhverfis húsið og sjónskoðun framkvæmd, en að sögn Stein er ekki öruggt að framkvæma ítarlega skoðun inn í húsinu að svo stöddu.
Þá er ljóst að endanlegt mat á tjóninu sem hlaust af brunanum liggur ekki fyrir fyrr en búið er að kanna það hvernig leiðslur undir húsinu, komu undan eldinum. Myndavélar verða sendar niður eftir leiðslunum og svo unnið úr þeim gögnum.
Ferlið mun sennilega taka á bilinu viku til tvær, en Stein vonar að það verði ekki mikið lengra en svo.