Eitt fyrirtæki ákveðið að taka ekki þátt í verkbanni

Einungis eitt fyrirtæki sem mbl.is hafði samband við á lista Eflingar yfir fyrirtæki sem ætla ekki að virða verkbann Samtaka atvinnulífsins, segir staðhæfinguna vera rétta. 

Samkvæmt könnun Eflingar hafa 22 fyrirtæki miðlað þeim upplýsingum til starfsmanna sinna að þau ætli ekki að taka þátt í verkbanninu sem hefst á hádegi á fimmtudag. 

SA sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu á fimmtu­dag í ljósi til­kynn­ing­ar Efl­ing­ar um að val­frjálst væri að taka þátt í verk­banni. Þar kom fram að ein­stak­ir at­vinnu­rek­end­ur og starfs­fólk sem verk­bann bein­ist gegn hafi ekki val, frek­ar en í til­viki verk­falla um það hvort hlíta skuli lög­mætu verk­banni. Slíkt fel­ur í sér brot á 18. gr. vinnu­lög­gjaf­ar­inn­ar.

Ákvörðun tekin í samráði við SVEIT

Mbl.is reyndi að hafa samband við flest fyrirtækin sem eru nú á lista Eflingar og var það einungis framkvæmdastjóri Te og kaffi sem lýsti því yfir að núverandi afstaða fyrirtækisins sé að ekki verði tekið þátt í verkbanninu. 

„Eins og staðan er akkúrat núna þá er það okkar afstaða,“ segir Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te og kaffi, spurður hvort það sé rétt að fyrirtækið ætli ekki að taka þátt í verkbanninu. 

Hann segir að ákvörðunin sé tekin í samráði við Sam­tök fyr­ir­tækja á veit­inga­markaði (SVEIT).

Guðmundur segist meðvitaður um tilkynningu SA að verkbannið sé ekki valfrjálst. 

„Við munum örugglega afla okkur frekari upplýsinga um þetta eftir helgi,“ segir hann og bætir við að vonandi komi ekki til verkbannsins og því þurfi fyrirtæki ekki að taka afstöðu. 

„Starfsfólkið okkar var farið að kalla eftir upplýsingum núna í vikunni og farið að óttast um sitt hlutskipti í þessari hörðu deilu. Þannig að okkur fannst við þurfa að senda frá okkur tilkynningu um okkar afstöðu.“

„Þetta er allra tap

Guðmundur segir að kaffihúsin á höfuðborgarsvæðinu yrðu að loka ef að verkbanninu yrði. 

„Þetta hefði gríðarleg áhrif,“ segir hann og bætir við að verkföll Eflingar hafi einnig talsverð áhrif. 

„Ef þessi barátta heldur svona áfram, þá myndum við hvort eð er þurfa að loka á einhverju stigi málsins. Það væri bara spurning um einhverja daga,“ segir Guðmundur og nefnir að fyrirtækið sé háð dreifingu á vörum og ef olía klárist stöðvist sú dreifing.

„Þetta er allra tap, þessi staða. Það er bara þannig.“

Leysist fyrir verkbann

Flestir forsvarsmenn fyrirtækjanna höfðu ekki tekið afstöðu eða sögðu að engin slík umræða hefði átt sér stað. Þar á meðal eru Fagkaup, Gólflagnir ehf., ÞG verktakar, Garðlist, Serrano og Freyja. Þá sögðust flestir vonast til að deilan yrði leyst áður en að til verkbanns komi. 

Líkt og mbl.is greindi frá í dag mun World Class taka þátt í verkbanninu. Icetransport og Iðnmark hafa mótað sér sömu afstöðu. 

Óviss um stöðu

Margir forsvarsmenn sögðust óvissir hvort verkbannið tæki til þeirra fyrirtækis þar sem þeir væru ekki aðilar að SA.

Sveinn Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugl, segir að Samtök afurðarstöðva, sem Matfugl heyrir undir, hafi sótt um aðild að Samtökum atvinnulífsins, en sú umsókn hafi ekki verið afgreidd enn. Þar af leiðandi hafi Matfugl hvorki getað tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkbannið, né eigi aðgang að verkbannssjóðum samtakanna.

Taldi hann því að fyrirtækið væri ekki bundið af verkbannsboðuninni, og var starfsfólk þess upplýst um það. Nýverið hafi svo komið upp sú staða að það er óvissu háð hvort fyrirtækið eigi að hlíta verkbannsboðuninni eða ekki. 

Sveinn segir að verið sé að skoða stöðuna og Matfugl muni fylgja öllum reglum, en sé það niðurstaðan að Matfugl sé bundið af verkbannsboðun SA, verði farið í að óska eftir undanþágu, í ljósi eðli starfseminnar. 

Ekki náðist í forsvarsmenn Nings, Gleðiheima, KFC, Vöku hf., Loftorku Reykjavík, Sóma, Nostra, Íslenska gámafélagsins, Í einu grænum, Terra umhverfisþjónustu og Fóðurblöndunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert