„Ég get lýst því yfir afdráttarlaust að ekkert fyrirtæki í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), þarf að hlíta verkbanni Samtaka atvinnulífsins,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri samtakanna, í samtali við mbl.is.
Tilefni yfirlýsingar hans er frétt mbl.is um það að einungis eitt þeirra fyrirtækja, sem Efling birti lista yfir að ætluðu ekki að virða verkbannið, staðfesti þá afstöðu sína. Var það Te og kaffi, en framkvæmdastjóri þess, Guðmundur Halldórsson kvað fyrirtækið ekki ætla að virða verkbannið.
Þannig grundvallast afstaða framkvæmdastjóra Te og kaffi á stöðu fyrirtækisins, sem aðildarfélags SVEIT, en ekki á sérstakri ákvörðun Te og kaffi.
„Samtökin SVEIT samanstanda af 150 rekstraraðilum, sem reka fleiri en 240 fyrirtæki. Við teljum okkur ekki bundin af ákvörðun SA um að leggja verkbann á félagsmenn Eflingar,“ segir Aðalgeir.
Því til stuðnings bendir hann á að SVEIT standi utan við kjaradeilu SA og Eflingar, og sérstakri kjaradeildu SVEIT og Eflingar hafi nú þegar verið vísað til ríkissáttasemjara. SA hafi ekki umboð til að semja fyrir hönd fyrirtækja í SVEIT.
Ekki er þessi afstaða SVEIT óumdeild, en Aðalgeir segir lögfræðiálit til stuðnings henni liggja fyrir og að SVEIT séu sannfærð um réttmæti þess.
Uppfært kl 16:00. Í samtali við mbl.is sagði Aðalgeir að ekkert fyrirtæki í SVEIT ætlaði að hlíta verkbanninu. Rétt er að ekkert fyrirtæki í SVEIT þurfi að hlíta verkbanninu. Það hefur nú verið leiðrétt.