Gat ekki hætt að gráta

Olena Koval upplifði skelfilegan ótta þegar stríðið skall á fyrir …
Olena Koval upplifði skelfilegan ótta þegar stríðið skall á fyrir ári síðan og ákvað nokkrum dögum síðar að flýja land. Hún kom til Íslands með börnin sín tvö en eiginmaðurinn er í Úkraínu. mbl.is/Ásdís

Emiliia litla, rúmlega eins árs krútt, skottaðist um stofuna en var fljót að hlaupa í fangið á mömmu sinni þegar hún sá ókunnuga gestinn. Hún horfði á blaðamann efasemdaraugum og um það bil þegar skeifa fór að myndast á litla munninn, tók amman hana í fangið og fór með hana inn í svefnherbergi að leika á meðan viðtalið fór fram. Við Olena settumst niður og með sorg í hjarta rakti hún sögu sína. Það tók á að rifja upp þessa martröð sem hún upplifði fyrir ári síðan og sem sér ekki fyrir endann á. Oftar en einu sinni vöknaði okkur báðum um augu.

Heyrði sprengjur falla

Dóttirin Emiliia fæddist í desember 2021 og var því aðeins tveggja mánaða þegar stríðið skall á þann 24. febrúar 2022. Olena segir landsmenn ekki hafa búist við stríði, þrátt fyrir að það hafi vofað yfir í nokkurn tíma.

„Það var bara of ótrúlegt að það yrði stríð. Við lifum á 21. öldinni og búum í Evrópu. Það er erfitt að útskýra það en við vildum trúa því að það yrði ekki stríð. Ég fylltist skelfingu þegar það hófst,“ segir Olena og lýsir þeim örlagaríka morgni þegar sprengjum tók að rigna yfir Kænugarð.

„Það var klukkan fimm um nótt. Ég heyrði sprengjur falla. Við vöknuðum, hlustuðum eftir sprengjunum og kveiktum á sjónvarpinu en þar var ekkert að sjá eða heyra. En stuttu síðar sáum við tilkynnt að stríð væri hafið og það greip um sig ofsahræðsla og fólk fór að yfirgefa borgina,“ segir Olena og tekur hlé á máli sínu.

„Ég fæ bara gæsahúð því ég hef ekki rifjað þetta upp í langan tíma,“ segir hún.

Fjölskylda Olenu kom til Íslands; foreldrar, mágkonur og börn þeirra.
Fjölskylda Olenu kom til Íslands; foreldrar, mágkonur og börn þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vissum ekkert hvert við ættum að fara. Það var tíu mínútna gangur í næsta neðanjarðarbyrgi. Þrátt fyrir að hafa efast um að það yrði stríð, höfðu yfirvöld varað við því og við vorum með litlar ferðatöskur tilbúnar með nauðsynjum. En það átti bara að vera til vonar og vara og í hjarta mínu trúði ég að allt yrði í lagi. En sem móðir varð ég að vera tilbúin,“ segir Olena og segir þau hafa haldið kyrru fyrir í íbúðinni fyrsta daginn, en eigin­maðurinn hafi þó þurft að mæta til vinnu. Olena var heima með börnin. 

„Ég var mjög hrædd og allan daginn hlustaði ég á fréttir en ákvað svo að hætta því. Það var of erfitt andlega og ég fór að hafa svo miklar áhyggjur og ég gat ekki hætt að gráta. Ég átti lítið barn og son og þurfti að reyna að halda geðheilsunni fyrir þau.“

Ítarlegt viðtal er við Olenu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert