Grimmdin á sér engin takmörk

Úkraínumenn á Íslandi efndu til mótmælastöðu gegn innrásinni við rússneska …
Úkraínumenn á Íslandi efndu til mótmælastöðu gegn innrásinni við rússneska sendiráðið í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vona að þessu algjörlega tilefnislausa og grimmilega rússneska stríði fari að ljúka. Heimurinn má ekki gleyma í eitt augnablik að grimmdin og yfirgangurinn eiga sér engin takmörk. Aðeins í sameiningu getum við komið á friði og tryggt öryggi allrar Evrópu og í heiminum öllum.“

Þetta segir Olena Jadallah, fyrrverandi varaborgarstjóri í Irpín í Úkraínu, við Morgunblaðið en hún er á meðal fjölda flóttafólks frá Úkraínu sem leitað hafa skjóls hér á landi.

Ár var liðið í gær frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst en rætt er við nokkra Úkraínumenn í Morgunblaðinu í dag og Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Úkraínumenn á Íslandi efndu í gær til mótmælastöðu við rússneska sendiráðið síðdegis í gær til að mótmæla stríðsrekstri Rússa.

Olena Jadallah á sér þá von að stríðinu ljúki á þessu ári. Hún stefnir á það, ásamt eiginmanni og tveimur sonum, að snúa heim til Úkraínu að stríðinu loknu.

Heyrði sprengjurnar falla

„Við þurfum að endurreisa heimilið okkar og fjölskyldufyrirtækið, en meirihluti bygginga og skrifstofa skemmdust eða eyðilögðust þegar borgin var hernumin,“ segir hún. Olena Koval, sem rætt er við í Sunnudagsblaðinu, á sér einnig von um að snúa heim að stríði loknu, líkt og nafna hennar, Jadallah. Olena Koval flúði hingað frá Kænugarði, ásamt börnum sínum og foreldrum. Eiginmaður hennar varð eftir í Úkraínu. Þau eiga börn; 11 ára son og rúmlega eins árs dóttur, sem var aðeins um tveggja mánaða þegar stríðið braust út.

„Það var klukkan fimm að nóttu,“ segir Olena um nóttina í Kænugarði er stríðið hófst. „Ég heyrði sprengjur falla. Við vöknuðum, hlustuðum eftir sprengjunum og kveiktum á sjónvarpinu en þar var ekkert að sjá eða heyra. En stuttu síðar sáum við tilkynnt að stríð væri hafið og það greip um sig ofsahræðsla og fólk fór að yfirgefa borgina.“

Mynd frá athöfninni.
Mynd frá athöfninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert