„Mesta þvæla sem ég hef heyrt“

Björn Leifsson, fram­kvæmda­stjóri og einn eig­enda World Class.
Björn Leifsson, fram­kvæmda­stjóri og einn eig­enda World Class. mbl.is/​Hari

„Þetta er bara sú mesta þvæla sem ég hef heyrt,“ segir Björn Leifsson, fram­kvæmda­stjóri og einn eig­enda World Class, í samtali við mbl.is um tilkynningu á vef Eflingar þess efnis að World Class ætli ekki að taka þátt í verkbanni Samtaka atvinnulífsins (SA). 

„Að sjálfsögðu förum við eftir þeim reglum og lögum sem settar eru.“

SA sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtu­dag í ljósi tilkynningar Eflingar um að valfrjálst væri að taka þátt í verkbanni. Þar kom fram að ein­stak­ir at­vinnu­rek­end­ur og starfs­fólk sem verk­bann bein­ist gegn hafa ekki val, frek­ar en í til­viki verk­falla um það hvort hlíta skuli lög­mætu verk­banni. Slíkt fel­ur í sér brot á 18. gr. vinnu­lög­gjaf­ar­inn­ar.

„Það var einhvern tímann umræða um það hvort að við þyrftum að fara eftir þessu af því við værum ekki í SA, en það hefur engum verið tilkynnt eitt eða neitt, og við ætluðum ekki að fara gera það,“ segir Björn. 

Loka búningsklefum

Tilkynningin á vef Eflingar er birt í ljósi könnunar sem hófst á vefsíðu stéttarfélagsins í gær.

Í gær höfðu á þriðja hundrað félagsmanna svarað spurningu um hvaða upplýsingar fyrirtæki höfðu veitt starfsfólki um hvort verkbanninu yrði hlýtt eða ekki. 

Björn segist ekki hafa hugmynd um hvernig starfsfólk World Class, sem starfar undir kjarasamning eða veitinga- og gistihúsasamning SA og Eflingar, hafi komist að þessari niðurstöðu. 

„Það þarf ekki nema einn að tilkynna eitthvað svona kjaftæði.“

Björn segir að hann geri ráð fyrir að loka búningsklefum líkamsræktarstöðva World Class á höfuðborgarsvæðinu er verkbannið hefst á hádegi á fimmtudag þar sem að verkbannið nær yfir þá starfsmenn sem sjá um þrif, en þó ekki alla.

Því gerir hann ekki ráð fyrir að líkamsræktarstöðvunum verði lokað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert