Ný miðlunartillaga myndi ógilda fyrri tillögu

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar. mbl.is/Hákon Pálsson

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að ef ný miðlunartillöga verði lögð fram í deilunni þá myndi hún ógilda tillögu Aðalsteins Leifssonar sáttasemjara sem var lögð fram 26. janúar. 

„Ef að það kemur fram ný tillaga, þá felur það í sér – í raun – að hin fyrri væri þá dregin til baka og ný sett fram í staðin. En það er ekkert komið að því,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is. 

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins, Alþýðusam­band Íslands og ís­lenska ríkið eiga að skila inn grein­ar­gerðum á mánudag til Félagsdóms vegna máls­höfðunar Ólaf­ar Helgu Ad­olfs­dótt­ur, rit­ara Efl­ing­ar, sem hef­ur kraf­ist þess að fé­lags­menn fái að kjósa um miðlun­ar­til­lögu Aðal­steins. 

Ekki búið að boða til formlegs fundar

Verður tillaga lögð fram fyrir fyrirhugað verkbann?

„Ég veit ekki hvenær það getur orðið. Ég er að reyna eins og ég get að halda úti samtölum við aðilana og leita leiða til þess að leiða þá saman.“

Ekki er búið að boða nýjan formlegan fund með Eflingu og SA hjá ríkissáttasemjara. 

„En fólk auðvitað talast við,“ segir Ástráður. 

Gerirðu ráð fyrir formlegum fundi í vikunni?

„Ég bara veit það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert