„Ég missti andann um stund og starði á handritabútana,“ segir Eyþór Guðmundsson fornbókasafnari.
Þar lýsir hann tilfinningunni sem fór um hann þegar hann áttaði sig á því að hann hefði fundið búta úr fornu skinnhandriti. Bútarnir voru notaðir sem viðgerðarefni í gamalli viðgerð á annarri fornbók.
Síðar kom í ljós að bútarnir eru taldir yfir 500 ára gamlir.
Eyþór á safn fornbóka sem telur á fjórða hundruð bækur.
„Flestar bækur sem ég á eru um 250 til 350 ára gamlar og svo á ég töluvert af bókum sem eru enn eldri.“
Hann safnar ekki aðeins bókunum heldur gerir hann þær einnig upp. Hann hefur keypt eða honum hefur áskotnast með öðrum hætti fjöldi bóka í slæmu ástandi, sem hann hefur varið tíma og peningum í að lappa upp á með vel heppnuðum hætti.
Nánast frá upphafi þess að hann fór að safna fornbókum segist Eyþór hafa hugsað í þessa átt.
Hann segist líta á það sem eitt af sínum hlutverkum, sem fornbókasafnara sem leggur áherslu á íslenskar fornbækur, að tryggja að ástand bókanna verði með allra besta móti og sem næst upprunalegu ástandi.
Þannig segist hann til dæmis alltaf nýta upprunalegt band bókanna en aldrei þurft að láta binda þær inn í nýtt band.
„Ég lít svo á að ég sé að bjarga verðmætum, hluta af íslenskri menningararfleið.“
Eyþór heldur úti áhugaverðri síðu á Instagram um þessa iðju sína, Old Icelandic Books.
Fyrir um þremur og hálfu ári síðan var Eyþór að gera upp bók sem vakið hafði athygli hans í versluninni Bókakaffi.
„Ég man alltaf eftir því þegar ég rak augun í þessa bók. Það fór ekki mikið fyrir henni þar sem hún lá á meðal annarra fornra fræðibóka en kápa hennar fannst mér nokkuð sérstök.
Eftir að hafa handleikið hana og gaumgæft um stund þá ákvað ég að fjárfesta í henni blessaðri.“
Þarna segir Eyþór frá frumútgáfu þýsku guðsorðabókarinnar Evangelia Præfigurata eftir guðfræðinginn Reinhard Bake og hann heldur áfram:
„Bókin þurfti viðgerðar við og þegar ég byrjaði að klæða hana úr kápunni komu í ljós bútar sem reyndust vera uppskriftir úr hinni fornu Jónsbók.“
Síðar kom í ljós að uppskriftirnar voru skrifaðar upp eftir Jónsbók á 15. öld.
Snemma á 14. öld var farið að nefna lögbók Magnúsar Hákonarsonar Noregskonungs (1238-1280) Jónsbók eftir Jóni Einarssyni sem vorið 1280 færði Íslendingum bókina frá Magnúsi en árið eftir var hún lögtekin á Alþingi.
Margir kannast við hugtakið uppskriftir en þá helst í samhengi við matargerð, bakstur eða prjónaskap.
Hugtakið kemur af því þegar konur fóru á milli bæja og skrifuðu upp eftir hvor annarri. Uppskriftir eru sem sagt eins og nafnið gefur til kynna þegar eitthvað er skrifað upp eftir öðru.
Eyþór segir það hafa tíðkast í hundruð ára á Íslandi að skrifa upp frá gömlum handritum.
„Oft var um efni gamalla lagabóka eða Íslendingasagna að ræða sem jafnvel voru skrifaðar upp á pappír. Á sínum tíma var mikið um að til dæmis lagabálkar og Íslendingasögurnar væru til á uppskriftum upp úr gömlu skinnhandritunum.“
Víkjum aftur að fundi Eyþórs. Hann segir að um hafi verið að ræða afskaplega merkilegan fund en lítið vissi hann hvað ætti fleira eftir að koma í ljós. Segir hann svo frá:
„Kápan, sem var gullfalleg og ríkulega skreytt, hafði fengið aðhlynningu nokkrum öldum áður því bæði á toppi og botni kjalar hennar komu í ljós viðgerðir sem voru með þeim hætti að skinnbútar höfðu verið saumaðir inn í hana til styrkingar.“
Eyþór hefur það fyrir reglu að henda ekki neinu sem hann finnur þar sem það gæti nýst honum síðar.
„Þegar ég fer að hreinsa skinnbútana koma smátt og smátt í ljós eitthvað sem mér virtust vera tákn.
Eftir því sem ég næ að hreinsa betur verða þau skýrari þar til ég átta mig á því hvað ég var með í höndunum.
Ég varð stjarfur þegar ég gerði mér grein fyrir því hvers konar menningarverðmæti ég var að handleika.
Þarna litu dagsljósið gamlir handritsbútar í fyrsta sinn í nokkrar aldir.“
Eyþór fór með þennan afar sjaldgæfa fund til Árnastofnunar sem rannsakaði bútana. Sérfræðingar stofnunarinnar komust að því að bútarnir gætu verið yfir 500 ára gamlir.
Hann segir það hafa verið í fjórða skiptið sem Árnastofnun barst slíkur fundur til rannsóknar síðan hún var sett á laggirnar árið 1972 og tók við hlutverki Handritastofnunar.
Alveg hreint ótrúleg saga en hefur Eyþór rekist á fleira merkilegt við viðgerðir sínar?
„Það er ekki óalgengt að maður rekist á gamlar viðgerðir þegar maður er að fara í gegnum bækurnar og er að gera þær upp.
Þegar maður tekur bækurnar í sundur rekst maður á jafnvel 100 eða 200 ára gamlar viðgerðir. Í þessar viðgerðir hefur verið nýtt gamalt efni til að mynda gömul sendibréf og fleira þess háttar.“
Í miðjum heimsfaraldri kórónuveiru áskotnaðist honum gömul sálmabók sem var að sögn Eyþórs í sjálfu sér ekkert sérstaklega merkileg.
„Ég hreifst af kápu bókarinnar og vildi eignast hana. Þegar ég var að blaða í gegnum hana þá dettur miði úr henni, sem legið hafði á milli blaðsíðna, niður á gólf.
Miðinn, sem virtist hafa verið skrifaður árið 1907, var orðsending frá bónda á bæ einum um að fólk kæmi ekki heim að bænum á meðan mislingafaraldurinn geisaði, nema nauðsyn bæri til.
Stórskemmtileg tilviljun að finna slíkt í heimsfaraldri sem hefði allt eins getað verið eitt af minnisblöðum Þórólfs, 113 árum fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Trúlega hefur miðinn verið notaður sem bókamerki á sínum tíma. Hann dúkkar svo upp rúmum hundrað árum síðar sem minnismerki þess tíma.“
Það eru ekki nema um þrír mánuðir síðan Eyþór fann gamlar uppskriftir síðast.
„Ég fann meðal annars fjöldann allan af uppskriftum úr Jónsbók og til dæmis Óðalsbálk hennar.
Þetta voru yfir þrjátíu uppskriftarbútar en mér er sagt að til dæmis Óðalsbálkurinn sé ansi merkilegur.“
„Ég tek bókina í sundur frá A-Ö og þvæ allar blaðsíður hennar upp úr vatni, sem bæði hreinsar hann og nærir. Þá geri ég við hverja einustu blaðsíðu áður en ég bind bókina aftur inn í upprunalegt band.“
Okkar frægu 12. og 13. aldar handrit eru öll rituð á bókfell, það er að segja skinn. Það var ekki fyrr en eftir árið 1580 að pappír fór að taka við af bókfelli fyrir alvöru og eftir að 17. öldin gekk í garð voru skinnhandrit svo gott sem horfin af leiksviðinu.
Pappír þessa tíma var unnin úr vefnaði, sem var oft endurunnin, til dæmis hör, lérefti, bómull eða hampi. Slíkan lérefts-pappír er því hægt að þvo eins og klæðnað í vatni og setja svo upp til þerris.
Það var ekki fyrr en eftir árið 1843 að pappír fékk þá eiginleika að þola alls ekki að blotna þegar farið var að framleiða pappír á mjög ódýran hátt úr pappírskvoðu, það er að segja trjákvoðu til pappírsgerðar.
Að viðgerð lokinni segir Eyþór að bókin ætti að vera í góðu ásigkomulagi í nokkrar aldir ef hugað er vel að henni og hún geymd við rétt skilyrði.
Handverkið segist Eyþór hafa kennt sjálfum sér að mestu leiti. Hann hafi aflað sér upplýsinga héðan og þaðan.
„Ég hef bæði lesið bækur og skoðað myndbönd ásamt því að hafa þegið ráðleggingar frá sérfróðum einstaklingum á þessu sviði.
Ég er nokkuð hreykinn af því að ég hef fengið að heyra, meðal annars frá bókbindurum og sérfróðum aðilum, að viðgerðir mínar séu nær óaðfinnanlegar, þar á meðal frá sjálfri Árnastofnun.“
Eyþór Guðmundsson er fæddur árið 1981. Hann er sérfræðingur í öryggismálum og með menntun í lífvörslu. Eins og svo margir hefur hann gegnt margvíslegum störfum í hinum og þessum geirum atvinnulífsins. Hann er sem sagt ósköp venjulegur maður á miðjum aldri.
En hvað varð til þess að venjulegur maður um fertugt hefur þessa ástríðu fyrir fornbókum?
„Það má segja að minn áhugi á forbókum hafi kviknað í barnæsku en ég hef alltaf haft gaman af gömlum hlutum.
Upphafið má rekja til þess þegar ég komst að því fyrst að á bænum sem ég sleit barnskónum á var ein af fyrstu prentsmiðjum Íslands. Reyndar eina prentsmiðja landsins til nokkurra ára.“
Eyþór ólst upp á Beitistöðum í Leirársveit í Borgarfirði og safnar helst bókum þaðan og frá Leirárgörðum en einnig safnar hann bókum frá Hólum í Hjaltadal, Skálholti, Hrappsey og Viðey.
„Mér þykir hvað vænst um bækurnar frá Beitistöðum og Leirárgörðum sökum þess að ég ólst þar upp. Safn mitt frá þessum tveimur prentstöðum er líklega eitt það stærsta í einkaeigu hér á landi og telur á þriðja tug bóka,“ segir Eyþór.
Eyþór er ansi flinkur í höndunum og hefur gott auga fyrir smáatriðum. Hann vinnur nú að því að smíða módel af gamla bænum á Beitistöðum, sem byggir að gamalli teiknaðri mynd.
„Mér datt í hug nýr vinkill á Instagram-síðu Old Icelandic Books. Ég vildi gera módel af bænum og segja svo sögu prentsmiðjunnar. Verkefnið er orðið töluvert umfangsmeira en ég reiknaði með en ég fer nú að ljúka því.
Markmiðið er að gera módel af hinum gömlu prentstöðunum sömuleiðis og birta upplýsingar um hvern prentstað. Líklega verða Leirárgarðar næstir í röðinni.“
Eyþór segir áhuga sinn á fornbókum ná langt út fyrir bækurnar sjálfar og innihald þeirra.
„Ég hef einnig einlægan áhuga á sögu þeirra og ekki síst þessu lýðfræði-, mannfræði- og þjóðfræðilega. Ég skoða bækurnar vel og rekst á ýmislegt í þeim frá fyrri eigendum sem gefur oft vísbendingu um þá og þeirra stöðu. Þetta finnst mér virkilega heillandi.
Þá finnst mér einnig sérstaklega merkilegt og heillandi að handleika bækur sem augljóslega hefur verið lögð mikil vinna í á sínum tíma. Oft eru kápur bókanna mikið skreyttar og hugsað er fyrir hverju smáatriði,“ segir hann og heldur áfram.
„Sumar hverjar eru slegnar látúni og skreyttar með gulli og það að þrykkja á pappír var listform út af fyrir sig.“
Má meðal annars finna í bókum þess tíma fjöldann allan af svo kölluðum koparstungum að sögn Eyþórs, sem hann segir hafa verið aðferð til að rista myndir og form í koparplötu sem var þakin bleki áður en hún var lögð á pappírinn.
„Eitt af þeim mörgu smáatriðum sem einkenna þessar fornu bækur og er horfið úr bókagerð samtímans eru spenslarnir,“ segir fornbókasafnarinn.
Spenslar eru eins konar klemmur sem notaðar voru til að halda bókunum saman og léku stórt hlutverk í varðveislu fornbóka, sér í lagi stærri og meiri verkum.
„Þó gegndu þeir ekki síður fagurfræðilegum tilgangi. Þannig að þú sérð að bókagerð þess tíma var mikil listgrein og menn ýmist unnu bækurnar allt frá prentun og bókbandi til kápugerðar, skreytingar og gyllingar sjálfir eða sérhæfðu sig í hverju atriði fyrir sig og oft tók það menn mörg ár að verða fullnuma í sinni listgrein.“
Eitt af því sem Eyþór Guðmundsson safnar eru biblíur og á hann nokkuð stórt safn íslenskra guðsorðabóka.
„Ég á sex Viðeyjarbiblíur, fjórar Reykjavíkurbiblíur og svo á ég einnig erlendar biblíur. Það er nú gaman að segja frá því að í safni mínu leynist til dæmis biblía á arabísku.
Viðeyjarbiblía telur 1.440 blaðsíður. Eyþór hefur gert upp tvö eintök hennar til þessa.
„Að þvo hverja einustu blaðsíðu og gera við ásamt því að binda þær aftur inn í upprunalegt band er mikið verk og tímafrekt.
Þegar ég var í fríi einu sinni réðst ég í að gera upp Viðeyjarbiblíu. Ég vann í átta klukkustundir á dag í átta daga.
Það styttist reyndar í að ég ráðist í að gera upp þriðja eintakið af þessum doðranti.“
Vídalínspostilla var mest lesna bók Íslendinga í hartnær tvær aldir.
„Ég á allar útgáfur af Vídalínspostillu frá upphafi. Ég hef sérstaklega lagt upp úr því.“
Að sjálfsögðu leynast í safni fornbókasafnarans nokkur eintök af hinum svokallaða Grallara.
Grallarinn var gefinn út af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum árið 1573. Hún kom síðasta út árið 1779 en stuðst var við hana í um 200 ár.
„Mér finnst nú tilhlýðilegt að menn eigi Grallarann eða Graduale: Ein Almenneleg Messusaungs Bok, safni þeir fornum sálmabókum yfirleitt. Ég á fimm eintök af þeirri ágætu bók.“
Eyþór segist eingöngu safna íslenskum fornbókum fyrir utan að safna einnig erlendum sem tengjast sögu Englands og Skotlands.
„Ég á auðvitað einhverjar fleiri erlendar fornbækur en ég safna þeim þó ekki sérstaklega.“
Kaldhæðni örlaganna birtist þó í því að elsta heillega bókin í safni Eyþórs er ensk biblía sem var prentuð árið 1595.
„Svo á ég talsvert af efni sem er eldra en er ekki hægt að skilgreina sem heillegar bækur.“
Eyþór segir samfélag fornbókasafnara á Íslandi ekki mjög stórt en þó séu einhverjir sem safni slíkum bókum.
Hann segist ekki vita um marga safnara sem fást við að gera bækurnar upp, þeir séu aðeins örfáir svo hann viti til. En hvernig gerir maður upp fornbók?
Eitt það allra merkilegasta í safni Eyþórs er tilskipun Kristjáns VII Danakonungs frá árinu 1800 um að leggja niður Alþingi ásamt auglýsingu Magnúsar Stephensen landshöfðingja þar um.
Þegar Alþingi var lagt niður tók landsyfirréttur í Reykjavík við hlutverki Lögréttu sem æðsti dómstóll Íslands. Árið 1920 var hann svo lagður niður en í hans stað kom Hæstiréttur.
Árið 1843 skipaði konungur svo fyrir að Alþingi skyldi endurreist og árið 1845 kom þingið saman á ný.
„Miðað við að tilskipunin telur aðeins 16 síður er hún mín verðmætasta eign. Þessi tilskipun hefur verið nefnd sem stórkostlegt réttarsögulegt fágæti og einungis eru tvö eintök varðveitt af henni á Landsbókasafni og aðeins eitt eintak af auglýsingu Magnúsar.“
Eyþór segir að sér hafi aldrei dottið í hug að leggja þessa iðju fyrir sig.
„Þetta er áhugamál sem gefur afskaplega mikið af sér og þetta er áhugamál sem gefur af sér á svo margan hátt.
Þetta er áhugamál sem hefur í för með sér endalausan lærdóm og þetta er áhugamál sem er mjög gefandi fyrir mig.
Þess vegna vil ég ekki gera þetta að starfi, að minnsta kosti ekki á þessari stundu. Þá væri þetta ekki lengur áhugamál,“ segir þessi merkilegi fornbókasafnari og forvörður íslenskrar menningararfleiðar.