Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir í samtali við mbl.is að fjórðungur bensínstöðva fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu sé með skerta starfsemi eða að stöðvunum sé lokað.
Verkfall olíubílstjóra hefur nú staðið yfir óslitið í tæplega viku.
„Það hefur enginn dreifing átt sér stað um helgina og verður mjög skert dreifing í næstu viku. Þannig að þetta smám saman minnkar,“ segir Hinrik en olíufyrirtækin eru með nokkra verktaka í vinnu hjá sér sem þurfa ekki að fara í verkfall.
Hann segir að ekki beri mikið á óðagoti hjá fólki.
„Við verðum ekki mikið var við það að það sé mikill hamagangur,“ segir Hinrik og hvetur fólk til að sýna áfram stillingu.
Hvað gerirðu ráð fyrir að ástandið geti varað svona lengi áfram?
„Það er rosalega erfitt að spá til um þetta. Ef að það myndast eitthvað óðagot þá er þetta fljótt að gerast, en ef að fólk sýnir stillingu þá verður þetta eitthvað til friðs áfram.“
Hann segir að er líður á verkfallið muni N1 enda á að einblína á að halda örfáum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu opnum.