Samtök atvinnulífsins (SA) hafa móttekið stefnu ASÍ vegna verkbanns gegn félagsfólki Eflingar sem ASÍ telur ógilt. Þetta staðfestir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is.
„Við höfum móttekið stefnuna frá Alþýðusambandi Íslands fyrir hönd Eflingar. Við munum taka til varna í málinu,“ segir hann en málið verður þingfest klukkan 16:15 í Félagsdómi á morgun.
Þá gerir Halldór ráð fyrir að greinargerðum verði skilað inn á þriðjudag og málflutningur far fram á miðvikudag.
„Við væntum þess að niðurstaða liggi fyrir á miðvikudag í ljósi þess hversu mikið er undir.“
Ekki er búið að boða formlegan fund hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar en Halldór segir að Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilunni, sé í daglegu sambandi við aðila málsins.
Þá vildi Halldór ekki tjá sig um yfirlýsingu Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) um að fyrirtækjum í SVEIT beri engin skylda til þess að taka þátt í verkbanni SA.
Í lögfræðiáliti SVEIT um verkbannið segir meðal annars, „reglan er sú að samþykktir félagasamtaka gilda aðeins fyrir félaga þeirra. Þeir sem standa utan samtakanna eru því óbundnir nema eitthvað sérstakt komi til. Fyrirtæki í SVEIT, sem eru ekki aðilar í SA, eru því óbundin af yfirlýsingu SA um verkbann. Það eru engar forsendur fyrir því að SA hafi vald yfir fyrirtækjum í SVEIT sem eru ekki félagar í SA. Samkvæmt stjórnarskrá njóta eigendur atvinnurekstrar félagafrelsis og atvinnufrelsis, líkt og aðrir. Þetta frelsi þeirra verður ekki takmarkað nema með lögum.“
Á vef SA segir hins vegar að verkbannið nái til allra þeirra sem starfi á félagssvæði Eflingar og sinni störfum sem falli undir almennan kjarasamning eða veitinga- og gistihúsasamning SA og Eflingar.
Sá skilningur gefur til kynna að þrátt fyrir að fyrirtæki sem séu í SVEIT, hafi hug á að semja við Eflingu um sérstakan kjarasamning, geti þau ekki verið undanskilin verkbanni SA enda starfi starfsfólk þeirra nú á grundvelli veitinga- og gistihúsasamnings SA og Eflingar.