„Á sunnudagsmorgni í lok febrúar bregður svo við að allar veðurstöðvar sýna hita ofan frostmarks,“ segir í færslu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Í Facebook-færslu á veðurvefnum Bliku bendir Einar á að í Sandbúðum við Sprengisandsleið í 820 metra hæð var hiti +1°C og á Gagnheiði ofan Egilsstaða í 950 m hæð mældust +2°C.
Hann bendir þó á eina undantekningu í Möðrudal á Fjöllum þar sem hiti var um frostmark, en í nótt kólnaði líka niður undir frostmark í heiðríkju og hægum vindi á Austfjörðum.
Einar nefnir að þykktin, eða fjarlægð á milli 500 og 1.000 hPa þrýstiflatanna, sýni um 5.400 metra á spákorti af Brunni Veðurstofunnar kl 12 í dag.
„Hún gefur til kynna hitagæði loftsins og henni er spáð á þessu róli fram á þriðjudag. Dæmigerð gildi fyrir september eða seint í maí!“
Þá nefnir hann að nú endurnýist milda loftið í sífellu vegna gríðarmikillar hæðar sem tekið hefur sér bólfestu fram eftir vikunni við Skotland.