Sjö skjálftar mældust í Mýrdalsjökli á milli klukkan sjö og níu í kvöld. Fimm þeirra voru yfir tveimur stigum en sá stærsti 2,6 stig að stærð. Ekki hefur skjálftavirknin verið mikil eftir það, að sögn Einars Bessa Gestssonar, veðurfræðings á Veðurstofu.
„Þetta er Mýrdalsjökull og þá fylgjumst við alltaf vel með,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
„Það er alls ekki óalgengt að það verði skjálftahrinur í Mýrdalsjökli,“ bætir hann við og nefnir að skjálftar á svæðinu hafi farið yfir þrjú stig í desember, október og nóvember.
Erfitt sé að segja til um nákvæma orsök skjálfta á þessu stigi en um er að ræða virka eldstöð og því alltaf efni til að fylgjast með þróun mála á svæðinu.
Jarðskjálfti að stærðinni 3,8 varð í norðanverðri Kötluöskju í desember en þá voru ekki uppi merki um óvenjulega virkni.