Viðar Þorsteinsson, fræðslu- og félagsmálastjóri Eflingar, segir í samtali við mbl.is mikla ringulreið ríkja um yfirvofandi verkbann Samtaka atvinnulífsins (SA).
Efling sendi könnun á félagsmenn þar sem spurt var hvaða upplýsingar félagsfólk hafi fengið um hvort atvinnurekandi ætli að framfylgja verkbanninu, sem á að hefjast að öllu óbreyttu á fimmtudag.
Rétt er að nefna að hver sem er getur í raun tekið þátt í könnuninni þar sem að valkvætt er hvort svarendur láti netfang fylgja svarinu. „Ef netfang fylgir ekki þá eru svörin nafnlaus og ópersónugreinanleg,“ segir í tilkynningu á vef Eflingar þar sem hægt er að svara könnunni.
„Könnunnin var send til félagsfólks og hún er bara ætluð fyrir félagsfólk að svara,“ segir Viðar.
„Við viljum fá mynd af því hvaða staðfestu upplýsingar okkar fólk hefur fengið frá sínum atvinnurekendum um þetta mál. Því við höfum haft þá tilfinningu að það sé mjög óljós og misvísandi upplýsingagjöf um verkbannið hjá mjög mörgum fyrirtækjum,“ svarar Viðar spurður hvað varð til þess að stéttarfélagið setti fram könnunina.
„Eins vegna þess að það hafa verið yfirlýsingar einstakra fyrirtækja og samtaka fyrirtækja sem hafa lýst því yfir að þau ætli ekki að taka þátt,“ segir hann og nefnir að einnig hefur verið minnst á undanþágur frá verkbanninu.
„Við viljum reyna að fá mynd af þessu – af því hvaða fregnir félagsfólk er að fá frá sínum atvinnurekendum. Það er í raun og veru ótrúlegt að sjá hversu margir vinnustaðir virðast greinilega ekkert hafa haft fyrir því að einu sinni ræða um þetta við sitt fólk. Það er kannski það sem hefur komið okkur mest á óvart,“ segir Viðar og bætir við að spurningar berist félaginu um stöðu félagsmanna er kemur að verkbanninu.
„Það er mikil ringulreið, sem ég held að sé líka hjá atvinnurekendum.“