Embættismenn og sendiráðið í Brussel hafa haldið hátt í 100 fundi með háttsettum fulltrúum í ESB og fulltrúum aðildarríkja sambandsins undanfarin misseri. Markmið utanríkisþjónustunnar hefur snúið að því að Ísland losni undan íþyngjandi losunarskatti sem fyrirliggjandi er að verði lagður á fluglegginn til og frá Íslandi.
Mbl.is hefur heimildir fyrir því að komið hafi verið að engu eða litlu leyti til móts við sjónarmið Íslands í lagagerðinni þrátt fyrir mikið átak. Ljóst er að óbreyttu muni ferðalög til og frá Íslandi hækka umtalsvert í verði með tilheyrandi áhrifum fyrir tengiflug til landsins.
Skatturinn er tilgreindur í nýjum lögum frá ESB sem hafa þann ætlaða tilgang að flýta fyrir því að vistvænna eldsneyti verði notað á flugvélar. Eldsneyti sem þykir dýrt og sagt af skornum skammti. Er losunarskattur uppbyggður með þeim hætti að flugfélög greiða fyrir hvern farinn kílómetra. Það setur samkeppnisstöðu Íslands sem tengimiðstöð við umheiminn í uppnám vegna landfræðilegrar legu.
Ekki er þó öll nótt úti. Enn á eftir að semja um upptöku lagagerðarinnar í EES samninginn á Íslandi en að óbreyttu mun áhrifa hans gæta strax árið 2024.
Utanríkisþjónustan og stjórnkerfið lögðust á eitt í baráttu sinni til að hafa áhrif á löggjöfina frá því að greining var gerð á áhrifum hennar haustið 2021.
Þannig segir í skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES samningsins sem kynnt var í janúar að í þessu skyni hafi embættismenn utanríkisráðuneytisins og sendiráðið í Brussel átt hátt í hundrað fundi með því sem næst öllum fastafulltrúum aðildarríkja ESB, fulltrúum ráðuneyta aðildarríkjanna í Brussel, háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar og hlutaðeigandi framsögumönnum þingnefnda í Evrópuþinginu og starfsmönnum þeirra.
Er þá ótalið bréf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til forseta framkvæmdastjórnar ESB, forseta leiðtogaráðs ESB og allra leiðtoga aðildarríkjanna þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi tillagna um leið og hún áréttaði metnað Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Þá kemur fram að utanríkisráðherra, innviðaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi öll vakið athygli á málinu meðal sinna starfssystkina og m.a. kynnt fyrir þeim erindi forsætisráðherra. Þá segir að málið hafi verið tekið upp af utanríkisráðuneytinu við sendiráð flestra ESB-ríkja gagnvart Íslandi.
Í skýrslunni segir að almennt hafi viðmælendur stjórnvalda lýst skilningi á sjónarmiðum Íslands á fundum sínum. Segir að nokkur árangur hafi náðst með átakinu. Sá árangur felst í úttekt „á áhrifum gerðarinnar á samkeppnisstöðu flugfélaga og flugvalla innan EES, sem og á flugþjónustu við fjarlægar byggðir og áhrif á íbúa fjarlægra byggða og kolefnisleka,“ eins og það er orðað í skýrslunni. Sú úttekt verður gerð árið 2028, þremur til fjórum árum eftir að ætlað er að hún taki gildi.
Tillögur um losunarheimildir á flug og krafa um vistvænt eldsneyti á flugvélar eru hluti af mun stærri aðgerðapakka ESB sem lagður var fram í júlí árið 2021 og ber heitið „Fit for 55.“
Um er að ræða skírskotun í markmið ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að a.m.k 55% árið 2030. Tveir liðir snúa að flugrekstri. Annars vegar að flugvélar taki upp umhverfisvænna eldsneyti með íblöndunarefnum og hins vegar að teknar verði upp losunarheimildir eða losunarskattur þar sem skattgreiðslur vaxa í samræmi við lengd flugleggsins. Losunarskatturinn mun verða settur á í skrefum og komin í fulla virkni árið 2027.
Utanríkisþjónustan gerði greiningu á áhrifunum haustið 2021. Fljótlega varð ljóst að málið gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir flugrekstur á Íslandi. Frá þeim tíma hafa Íslendingar „lobbíað“ til að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri. Ísland á hins vegar ekki beina aðkomu að lagasetningarferlinu. Sagt er að heilt yfir ríki skilningur á þeim kostnaðarauka sem fylgir landfræðilegri stöðu Íslands. Hins vegar hefur mbl.is heimildir fyrir því að almennt mat manna sé að lítið hafi verið verið komið til móts við sjónarmið Íslands enn sem komið er.
Þó var komið fyrir möguleika á því að niðurgreiða vistvæna eldsneytið sem og að gerð yrði áðurnefnd úttekt um áhrif á afskekkt svæði.
Áhrifanna mun að óbreyttu fara að gæta strax á næsta ári þegar fríar losunarheimildirnar verða felldar niður. Sem stendur er helmingur losunarheimilda Icelandair frír en hinn helmingurinn er keyptur á markaði. Play kaupir allar sínar losunarheimildir. Er það á grundvelli þess að miðað var við flug á tilteknu tímabili þegar fríum losunarheimildunum var úthlutað á sínum tíma. Á þeim tíma var Play ekki til.
Viðmælendur mbl.is segja enn von um ásættanlega niðurstöðu fyrir Ísland. Annars vegar er ekki búið að samþykkja lagaheimildina formlega þó efnisleg niðurstaða liggi fyrir. Hins vegar verða svo samningaviðræður um það með hvaða hætti Ísland mun taka upp löggjöfina hérlendis.
Ljóst er að Ísland mun kalla eftir aðlögun við löggjöfina. Þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig Keflavíkurflugvöllur geti haldið sinni samkeppnisstöðu upp á tengiflug til og frá Íslandi. Er þá bæði horft á íslensk flugfélög í þessu samhengi sem erlend flugfélög sem fljúga til Íslands. Þannig mun undanþágubeiðini snúa að flugleggnum en ekki flugfélögunum sjálfum.
Í stjórnkerfinu hafa jafnvel verið uppi þau sjónarmið að Ísland muni hreinlega hafna löggjöfinni og hún verði ekki tekin upp. Mun það vera fordæmalaust með tilliti til EES samningsins. Mun líklegra er þó að einhvers konar aðlögun verði ofan á. Hvað sem því líður er skýrt að afstaða ráðherra og embættismanna hingað til hefur verið á þann hátt að löggjöfin verði ekki innleidd nema tekið verið tillit til íslenskra aðstæðna.