„Við urðum að fara á öruggari stað“

Hin 36 ára Yana Miz kom til Íslands í mars …
Hin 36 ára Yana Miz kom til Íslands í mars í fyrra ásamt dóttur sinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Íslensk vinkona mín sendi mér skilaboð og spurði hvort við vildum koma hingað. Í fyrstu sagði ég nei en skipti svo um skoðun af því að við urðum að fara á öruggari stað,” segir Yana Miz, en hún kom til landsins frá Úkraínu ásamt átta ára dóttur sinni, Marharítu, hinn 12. mars í fyrra vegna stríðsins. Þær áttu áður heima í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.

Segir hún ferðina til Íslands hafa verið langa en að þær mæðgur hafi verið heppnar að komast á leiðarenda. Fóru þær frá Úkraínu að landamærum Póllands og tóku þaðan flug til Íslands.

„Ég er svo þakklát fyrir að vera á þessum örugga og fallega stað, en á sama tíma er ég reið og ósátt. Ég get ekki sætt mig við þetta ástand af því að ég valdi ekki að yfirgefa Úkraínu, ég var í raun bara hrakin burt. Ég get ekki bara tekið því og haldið áfram.

Ég veit ekki hversu lengi ég á að gera ráð fyrir að vera hér, í hversu marga mánuði eða ár og það er erfitt. En ég er þakklát fyrir að dóttir mín sé í skóla og sé búin að eignast vini hér. Auðvitað saknar hún þess að vera heima, stundum er hún reið yfir þessu eins og biður um að fá að fara aftur til Úkraínu. En hún er heilt yfir hamingjusöm hér.”

Á bróður í úkraínska hernum

Yana starfaði á leikskóla í nokkra mánuði en hefur verið að glíma við veikindi. Hún er sálfræðingur að mennt. „Ég hef áhuga á að vinna með úkraínsku fólki hér og hef reynslu af því að vinna með börnum og fullorðnum sem orðið hafa fyrir áföllum.”

Yana á stóra fjölskyldu í Úkraínu sem hún talar reglulega við, þar á meðal foreldra sína, ömmu, systkini og fjölskyldur þeirra. Þá er bróðir Yönu í úkraínska hernum.

„Ég get sent honum skilaboð og stundum get ég hringt í hann og talað við hann í nokkrar mínútur. Það er í lagi með hann en það er mjög erfitt að vita af honum í þessum aðstæðum.”

Hugsar um einn dag í einu

Yana segir erfitt að spá fyrir um framtíðina.

„Ég vona að eftir 20 ár muni ég sitja í notalegum stól með barnabörnum mínum og segja þeim allar mínar sögur. Þetta er framtíðin sem ég reyni að ímynda mér. En að hugsa til þess hvað muni gerast á næstu vikum, mánuðum eða árum er mjög erfitt fyrir mig. Ég get bara hugsað um einn dag í einu eða eftir 20 ár, en ekkert þar á milli,“ segir hún.

„Ég geri mér grein fyrir því að Rússland er fjölmenn þjóð og þeir hafa marga sem þeir geta skyldað í herinn. Jafnvel þótt ég efist ekki um að við munum sigra þá getur það tekið tíma, en ég veit ekki í hversu marga mánuði í viðbót,” segir hún og bætir við að stríðið snerti hvert einasta heimili og fjölskyldu í Úkraínu.

Þakklát Íslendingum

Hún segist hafa verið undirbúin fyrir því að stríðsátökin stæðu yfir í einhverja mánuði og að hún gæti síðan snúið aftur heim.

„Ég sá auðvitað ekki fyrir mér að stríðið yrði svona lengi í gangi. Ég hélt að ég yrði komin heim á þessum tímapunkti, en svo er ekki.

Yana segist eiga íslensku samfélagi mikið að þakka og öllum þeim sem stutt hafa úkraínsku þjóðina.

„Mér finnst ég alltaf vera velkomin og ég er virkilega þakklát fyrir það. Ég fengið að kynnast hlýju og góðu fólki hér á Íslandi og ég veit að þetta er besti staðurinn fyrir okkur, á eftir Úkraínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert