Bílvelta, grjóthrun og slasaður skíðamaður

Lögreglan á Vestfjörðum að störfum.
Lögreglan á Vestfjörðum að störfum. Ljósmynd/Lögreglan á Vestfjörðum

Bifreið valt út af veginum við Geitahvammsá í Hestfirði fyrir viku síðan, að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.

Auk ökumannsins voru þrír farþegar í bifreiðinni.  Enginn slasaðist, enda voru allir með öryggisbelti og viðeigandi verndarbúnað.

Missti stjórnina

Annað umferðaróhapp varð í Breiðadal um miðjan dag á miðvikudaginn í síðustu viku þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vegar.  Hvorki ökumaður né farþegi meiddust, enda báðir í öryggisbelti, að því er segir í Facebook-færslu lögreglunnar.

Skíðamaður slasaðist

Ungur skíðamaður slasaðist í Tungudal síðdegis á föstudag. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar. Áverkar hans eru ekki lífshættulegir.

Þá varð árekstur við hringtorgið á Ísafirði á föstudag þegar ekið var aftan á bifreið sem var stöðvuð meðan ökumaður beið eftir því að komast inn í hringtorgið. 

Grjóthrun úr göngum

Seint á föstudagskvöld bárust jafnframt tilkynningar um að grjót væri að losna úr veggjum stystu jarðganga á Íslandi, eða veginum í gegnum Arnarneshamar á Súðavíkurhlíð.  Vegagerðin hreinsaði grjótið af veginum og eru vegfarendur beðnir um að gæta varúðar þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert