Boðað til fundar í kjaradeilu Eflingar og SA

Ástráður hefur boðað deiluaðila á sinn fund í kvöld.
Ástráður hefur boðað deiluaðila á sinn fund í kvöld. Samsett mynd

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á fund í Karphúsinu klukkan 20 í kvöld. Þetta staðfestir Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilunni.

„Hann er boðaður til að ráðgast við aðila um framhald mála og hugsanlega gerð miðlunartillögu," segir Ástráður í samtali við mbl.is um efni fundarins.

Spurður hvort hann sé tilbúinn með miðlunartillögu segir Ástráður: „Ég hef ágætar hugmyndir. Ég er fullur af hugmyndum.“

Ný miðlunartillaga trompar þá eldri

SA hefur boðað verkbann á rúmlega 20 þúsund Eflingarfélaga á almennum markaði sem starfa undir kjarasamningi við SA og hefst það að óbreyttu á fimmudag. Þá standa nú yfir verkföll hótelstarfsmanna og bílstjóra hjá Samskip, Olíudreifingu og Skeljungi.

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA, sagði fyrir helgi að hann íhugaði að leggja fram aðra miðlunartillögu, sem myndi þá trompa miðlunartillöguna sem forveri hans, Aðalsteinn Leifsson, lagði fram. Ekki hefur verið hægt að kjósa um þá tillögu þar sem Efling neitaði að afhenda félagaskrá, sem er ígildi kjörskrár.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, virtust bæði vera til í það í þættinum Pallborðið á Vísi á föstudag, að fresta verkföllum og verkbanni ef ríkisáttasemjari boðað þau til fundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert