Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gefur kost á sér í kjöri til stjórnar Samtakanna '78.
Kosið verður til stjórnarinnar á aðalfundi samtakanna þann 10. mars.
„Bakslagið gagnvart hinsegin fólki að undanförnu hefur vakið hjá mér brennandi þörf fyrir að leggja mitt af mörkum til að styrkja það mikilvæga og fjölbreytta starf sem Samtökin sinna í samfélaginu,“ skrifar Jóhannes Þór á Facebook.
Í kynningu á framboði sínu á vef samtakanna tekur Jóhannes fram að hann sé „fimmtugur tvíkynhneigður karlmaður sem bý í Hafnarfirði ásamt eiginkonu og tveimur börnum, köttum og kanínu“.
„Ég kom seint út og hef ekki tekið mikinn virkan þátt í viðburðum eða öðru starfi Samtakanna ‘78. Bakslagið og sú neikvæða umræða sem á sér stað í samfélaginu núna hefur hins vegar vakið hjá mér brennandi þörf fyrir að verða að liði,“ skrifar hann meðal annars.
„Ef það er eitthvað sem drífur mig áfram meira en nokkuð annað þá er það að geta lagt lóð á vogarskálarnar til að búa til betra samfélag fyrir börnin mín, þó ekki væri nema að litlu leyti.“