Fjórir voru handteknir vegna árásar sem átti sér stað fyrir framan mathöllina Höfða fyrr í dag. Grunur leikur á að um stunguárás hafi verið að ræða.
Tilkynningin um árásina barst lögreglu klukkan rúmlega tvö í dag. Tveir sjúkrabílar voru sendir á staðinn og var einn fluttur á slysadeild með minniháttar áverka.
Þetta staðfestir Stella Mjöll Aðalsteinsdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hún segir frekari upplýsingar ekki liggja fyrir að svo stöddu. Verið sé að vinna úr grunnupplýsingunum sem liggi fyrir og málið til rannsóknar.