Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, útskýrir í aðsendri grein á Vísi í dag hvers vegna hann sat ekki fyrir á mynd með viðsemjendum í kjölfar undirritunar kjarasamninga í desember sem einhverjir muni hafa veitt athygli. „Svo vel tóku sumir eftir að þeim þykir þetta athæfi mitt teljast til verstu synda í formannstíð minni,“ skrifar formaðurinn.
Kastar hann svo fram þeim spurningum hvers vegna hann hafi ekki staðið brosandi á mynd með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins eftir að hafa setið sólarhringum saman vansvefta við samningaborðið. „Af hverju hafði ég ekki geð í mér að standa með falskt bros innan um hæstánægð Samtök atvinnurekenda með niðurstöðuna?“ spyr Ragnar.
Ástæðuna kveður hann einfalda: „Ég gerði kröfu um og vildi setja sem skilyrði að SA tæki virkari þátt en áður hefur þekkst í því að halda hér verðstöðugleika og gera það með þeim hætti að stjórnvöld og samtök atvinnulífsins hefðu af því raunverulegan hag að halda aftur af verðlagshækkunum og hækkun opinberra gjalda.“
Hugmyndin hafi falist í því að samningur losnaði færi vísitala neysluverðs í 598 stig en hún stóð í 560,9 við gildistöku samningsins. Hafi 598 verið töluvert yfir þeim væntingum og markmiðum sem samningsaðilar hafi sett sér með gerð skammtímasamnings sem rennur út í janúar 2024.
„Það er nú ljóst að atvinnulífið og stjórnvöld höfðu allt aðrar væntingar í huga en við. Væntingar um að hækka verðlag og græða enn meira, og stjórnvöld álögur á almenning til að hlífa breiðustu bökunum enn frekar,“ skrifar Ragnar.
Það sem hann óttaðist mest hafi svo einmitt gerst, að fyrirtækin og hið opinbera færu að demba verðlagshækkunum og hærri gjöldum á launafólk, hefði slíkt engar raunverulegar afleiðingar í för með sér. „Ég trúði því alls ekki að fagurgalar atvinnulífsins og stjórnvöld væru raunverulega í okkar liði og hafði ég fulla ástæðu, og reynslu [af því] að loforðin eru einskis virði þegar á reynir. Það reyndist vera rétt mat.“
Trú Ragnars hefði verið sú að SA og stjórnvöld héldu aftur af verðlagshækkunum út samningstímann ef þau ættu á hættu að samningar við verkalýðshreyfinguna yrðu lausir mun fyrr og væru þar með nauðbeygð til samfélagsábyrgðar og lágmarksvirðingar gagnvart almenningi í landinu.
„Hagstofan gaf út nýja vísitölu fyrir febrúar og er niðurstaðan sláandi. Hún stendur nú í 577,3 og samkvæmt mínum útreikningum hefðu samningar losnað í [á]gúst næstkomandi, ekki janúar 2024, ef þróunin heldur áfram sem horfir,“ heldur Ragnar áfram í pistli sínum.
Nú mælist verðbólga 10,2 prósent og hafi ekki verið hærri síðan haustið 2009. Helstu áhrifaþættir þar eftir undirritanir samninga eru að sögn Ragnars gjaldskrárhækkanir hins opinbera, verðlagshækkanir fyrirtækja og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans.
„Skal einhvern undra að ég hafi haft takmarkað geð í að standa með tilgerðarlegt bros á mynd með Samtökum atvinnulífsins eftir að þau höfnuðu alfarið að taka raunverulega þátt í að verja hér lífskjör? Höfnuðu að sýna viljan[n] í verki og standa með fólkinu í landinu!“ skrifar Ragnar.
Biður hann lesendur að lokum að hafa töluna 598 í huga, en „598“ er einmitt fyrirsögn greinar hans. „Höfum 598 í huga ef þið heyrið gagnrýni á það að ég hafi neitað að sitja fyrir á mynd eftir undirritun síðustu kjarasamninga, brosandi með vöfflurjóma út á kinnar,“ lýkur Ragnar Þór Ingólfsson máli sínu.