Búast má við kraftmiklum norðurljósum í kvöld.
Frá þessu greinir veðurvefurinn Blika og vísar til fjölmargra tilkynninga frá geimveðursetri bandarísku veðurstofunnar í Colorado, sem varða nokkuð öflugan sólstorm sem hefur nú áhrif á segulsvið jarðar.
Norðurljósin létu mikið á sér bera yfir Íslandi í nótt og hafa fjölmargar myndir borist af Austfjörðum, þar sem sjá má mikla litadýrð á himni.
Í umfjöllun Bliku segir að enn flottari sýning gæti orðið í kvöld, þar sem ský byrgja ekki sýn.
Þar er bent á að svokallaður K-stuðull, sem mælir styrk norðurljósa, sé í 7 eins og er.
„Ef hann nær 8 til 9 í kvöld gæti opnast konfektkassi af stóru gerðinni fyrir aðdáendur norðurljósanna,“ stendur þar.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, sem heldur úti vefnum, segir að rofa muni líklega til í lágskýjabreiðunni sunnan- og vestanlands samkvæmt skýjahuluspánni klukkan 23 í kvöld.
„Farandi frá Reykjavík myndi ég veðja á Hvalfjörð eða jafnnel Borgarfjörð norðan Skarðsheiðar. Eða austur á Rangárvöllum og Fljótshlíð þar sem Eyjafjöllin taka rakann í SA-golunni,“ skrifar Einar.