Niðurstöður þróunar- og rannsóknarverkefns VIRK um kulnun í starfi benda til þess að umtalsvert fleiri telji sig þjást af kulnun en myndu raunverulega falla í þann hóp samkvæmt skilgreiningu. Þótt 58 prósent umsækjenda um starfsendurhæfingu hjá félaginu teldu sig þjást af kulnun í starfi féllu aðeins 6,1 prósent að nýrri skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO um kulnun.
„Þarna erum við að tala um hóp sem hefur upplifað þetta í ákveðinn tíma. Við könnumst kannski flestöll við þetta, í törnum, en síðan vindur ofan af því,“ segir Berglind Stefánsdóttir, önnur tveggja sálfræðinga sem standa fyrir verkefninu.
Kollegi hennar, Guðrún Rakel Eiríksdóttir, tekur í sama streng og segir mikilvægt að skoða hvort annar heilsufarslegur vandi geti útskýrt vandann, svo viðkomandi fái viðeigandi meðferð. „Við þjónustum alla þessa hópa jafnt. Við erum að reyna að skerpa á þessu til þess að vita hvernig við getum best komið til móts við hvern og einn.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.