Máli Alþýðusambands Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins er varðar fyrirhugað verkbann, var frestað fram til morguns, þar sem að gefinn var frestur fyrir SA að skila inn greinargerð í málinu.
Greinargerðinni er ætlað að svara stefnu ASÍ, en SA hefur tíma til klukkan 15.15 á morgun til að skila henni til dómsins. Aðalmeðferð í málinu fer svo fram á miðvikudaginn.
Stefna ASÍ gegn SA snýr aðallega að formgöllum í kosningu SA um boðun verkbanns. Alþýðusambandið vill fá úr því skorið hvort eðlilega og réttilega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslunni um boðun verkbannsins.
Samkvæmt Ragnari Árnasyni, lögmanni SA, eiga meintir formgallar að snúa að því að SA hafi ekki verið heimilt að leyfa öllum félagsmönnum sínum að kjósa um boðun verkbanns sem aðeins sneri að Eflingarfólki. Aðeins hefði átt að leyfa atvinnurekendum sem eru með Eflingarfólk í vinnu að kjósa um boðun verkbannsins.