Starfsemi næturstrætisvagna var endurvirkjuð um helgina og voru fjórar leiðir eknar eftir miðnætti um aðfaranætur laugardags og sunnudags.
„Þetta gekk alveg þokkalega vel,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson forstjóri Strætó bs.í samtali við mbl.is.
„Við áttum nú ekkert von á miklu. Þetta er svona rétt fyrir mánaðamót.“
Aðeins var hægt að taka næturstrætó úr miðbæ Reykjavíkur og þær leiðir sem voru eknar voru leið 103 í Breiðholtið, leið 104 í Úlfarsárdal, leið 105 í Norðlingaholt og leið 106 í Grafarvog.
Jóhannes segir að hann hafi ekki búist við mikilli aðsókn en telur notkun á næturstrætó ásættanlega. „Þetta var sæmilegt en þeir voru ekkert fullir.“
„Við erum alla vega búin að tryggja fjármagn frá Reykjavíkurborg út árið,“ segir hann.
Fleiri leiðir verði ekki opnaðar í bráð. Aðeins muni fleiri leiðir opnast ef fleiri sveitafélög taki upp þjónustuna.
„Auðvitað getur vel verið að sveitarfélögin skoði þetta, en ég veit ekki. Það er náttúrulega hart í ári hjá sveitarfélögum. Það er nú kannski ástæðan fyrir því að þetta var lagt af á sínum tíma.“
Hann segist ekki hafa orðið var við það að önnur sveitafélög hafi sýnt áhuga á að taka upp þjónustuna á næstunni.