Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það skipta gríðarlega miklu máli við að ná tökum á verðbólgunni að farsæl lending náist í kjarasamningum á vinnumarkaði. Það sé lykilatriði til að takast á verðbólgu og tryggja stöðugleika. Þá þurfi ýmsir þættir einnig að vinna saman.
„Það er auðvitað lykilþáttur í því að við náum tökum á verðbólgunni, að allir þessir þættir vinni saman; peningastefna, ríkisfjármál og vinnumarkaður,“ sagði Katrín í svari sínu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Hún viðurkenndi að hún hefði viljað sjá að verðbólgumæling í dag hefði ekki farið yfir 10 prósenta markið. En það lægi fyrir að verðbólgan ætlaði að verða þrálátari en spáð var.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, benti á að aðstæður í dag væru ekki að vinna með venjulegu fólki og að fara þyrfti í raunverulegar aðgerðir til að ná stöðugleika. Staðan kallaði á aga í ríkisfjármálum.
Spurði hún Katrínu hvort það væri eitthvað plan um að koma böndum á ríkisfjármálum „eða að halda áfram á bensíngjöfinni og víkka út lántökuheimildir út í hið óendanlega og reka ríkið áfram á okurlánum“.
Líkti hún ástandinu meðal annars við það að ríkið væri komið í „blússandi bissness í smálánaviðskiptum.“
Katrín sagði ríkisstjórnina hafa boðað ákveðið aðhald við framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Hinsvegar væri það rétt að útgjöld hafi aukist milli umræðna vegna brýnna mála, heilbrigðismála og löggæslu, sem þingmenn hafi verið sammála um að þyrfti að bæta í. Aðra aukningu mætti meðal annars rekja til tæknilegra þátta varðandi það hvernig staðið væri skil á reikningum.
„Mér finnst hins vegar mikilvægt núna að við horfum til þess, eins og ég sagði við háttvirtan þingmann á dögunum, í umræðum í þessum sal, að skoða leiðir til að beita frekara aðhaldi án þess að skerða þessa grunnþjónustu sem er mikilvæg og samstaða hefur verið um í þessum sal að bæta, að við skoðum leiðir til frekari tekjuöflunar. Síðast en ekki síst skiptir máli að við horfum líka á hvað við getum gert, ekki bara í gegnum ríkisfjármálin heldur í samfélaginu.“
Tók hún sem dæmi matvörugátt sem opnuð verður í næsta mánuði sem mun gera neytendum kleift að fylgjast með þróun á verðlagningu matvöru og vinnu í innviðaráðuneytinu varðandi leigumarkaðinn.
„Þar er gert ráð fyrir því að sá hópur, þar sem aðilar vinnumarkaðarins sitja, geti skilað tillögum jafnt og þétt og þar verður að horfa sérstaklega á leigumarkaðinn því þar eru tekjulægstu hóparnir.“