Segir vegið að orðspori sínu

Arnar Þór, til vinstri, ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi.
Arnar Þór, til vinstri, ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Þór Ingólfsson, sem er annar tveggja fyrrverandi blaðamanna Kjarnans sem stefndi Páli Vilhjálmssyni bloggara, segir að hann hafi verið hissa að lesa ummæli Páls um að hann hefði byrlað manni og stolið síma hans. 

Fyrir vikið hafi verið ákveðið að höfða meiðyrðamál gegn Páli.

Lögmaður Arnars, Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, benti á að fleiri ummælum hefði verið beint í átt að blaðamönnum Kjarnans. En Arnar sagði að hann hefði dregið línu í sandinn þegar hann var bendlaður við glæp.

Frá vinstri: Arnar Þór, Vilhjálmur og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Frá vinstri: Arnar Þór, Vilhjálmur og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

Þetta sagði Arnar við vitnaleiðslur í meiðyrðamáli hans og Þórðar Snæs Júlíussonar, fyrrverandi ritstjóra Kjarnans, gegn Páli. 

Þá sagði hann að orðspor hans hefði verið undir og því hefði hann höfðað þetta meiðyrðamál á hendur Páli. Hann sagði af og frá að hann hefði komið nálægt stuldi á símanum, aðspurður af lögmanni sínum. 

Hann sagði að lögreglan hefði spurt hann við skýrslutöku hver hans heimildarmaður væri.  Arnar sagðist eðlilega ekki hafa gefið það upp til að vernda sinn heimildarmann. 

Þá sagði Arnar að hann hefði ekki verið spurður út í byrlun heldur aðeins hvort og þá hvernig hann hefði komist yfir gögn úr umræddum síma.

Lögreglan á Norðurlandi eystra er enn með málið um meintan stuld á símanum til rannsóknar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka