Bæði Efling og Samtök atvinnulífsins hafa gert það vel að tala inn í sína hópa í því áróðursstríði sem fram fer á opinberum vettvangi í kjaradeilu SA og Eflingar. Það sem er óvenjulegt við kjaradeiluna samanborið við undanfarin ár er óvenju harkaleg umræða og stór orð sem hafa verið höfð uppi.
Er þetta mat Grétars Theodórssonar, framkvæmdastjóra Spors, samskipta og ráðgjafafyrirtækis í almannatengslum.
Hann segir taktík Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Eflingar ekki endilega ganga út á að ná hylli almennings heldur að blása sínu fólki byr í brjóst með skýrum skilaboðum. Í því samhengi megi líkja henni við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Á sama tíma er talsmaður SA Halldór Benjamín Þorbergsson, yfirvegaður og kemur skilaboðum til síns hóps með þeim hætti að fylgjendur hans eiga auðvelt með að hrífast með.
„Þegar horft er á almannatengslin þá hefur Efling gert þrennt vel. Í fyrsta lagi eru það einföld lykilskilaboð sem hamrað er á aftur og aftur. Það er tal um aðlögun að sérstökum aðstæðum Eflingarfólks, að láglaunafólk eigi erfitt með að ná endum saman og að lokum tal um mannsæmandi laun,“ segir Grétar
Bendir Grétar á að hinn almenni lesandi fái mikið af skilaboðum úr nærumhverfi sínu á hverjum degi og Efling hafi gert það vel að koma einföldum skilaboðum sem fólk skilur í gegn. Þannig sé hreinlega markmið að tala í fyrirsagnastíl sem einkennist af óhefluðum skilaboðum. „Við lesendur smellum á þessar fréttir því þetta er í óhefluðum stíl,“ segir Grétar.
Hann segir að SA sé eðli málsins samkvæmt í meiri varnarstöðu. „Ef við tökum íþróttasamlíkinguna þá er Efling í sóknarbolta en SA einbeitir sér að vörninni og taka þá bolta sem berast á þeirra vallarhelming og spyrna frá. Halldór Benjamín er þaulvanur í fjölmiðlum og við þekkjum öll að hann er með skemmtilega frasa í kringum sig. Hann er líka með fyrirsagnastíl á því sem hann segir. En það er annar og hefðbundnari tónn í skilaboðunum þar engu að síður,“ segir Grétar.
Gétar segir að orðræða Eflingar eigi skírskotun í verkalýðsbaráttu fyrri tíma. Búið sé að grafa upp gamla frasa um samspil atvinnurekenda og vinnuafls. Samhliða sé stuðningsfólk mjög virkt á athugasemdakerfum og tilbúið að fara á netið og rífast. Bendir hann á í þessu samhengi sé ekki óþekkt að hópar séu tilbúnir fyrirfram að leggja orð í belg á netinu áður en baráttan hefst. Grétar viti hins vegar ekkert um það hvort slíkt sé tilfellið að þessu sinni.
„Efling hefur talað mikið inn í sína hópa. Þetta eru einföld skilaboð inn í sinn hóp og svo eru aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu sem Efling veit að það mun aldrei ná til. Finna má hliðstæðu í þessu í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar hann flaug sem hæst. Hann var með hóp upp á 15-25% sem gat hugsað sér að kjósa hann en hann reyndi ekkert að ná til hinna 75% prósentanna. Enginn var þar á milli. Þetta er svipað með Eflingu og Sólveigu Önnu. Fólk hefur sterkar skoðanir annað hvort með eða á móti. Það er styrkleiki í þeirri baráttu sem er í gangi,“ segir Grétar.
Grétar bendir á að það sem sé óvenjulegt við verkalýðsbaráttuna nú samanborið við árin á undan sé sú staðreynd að búið sé að semja við stóran hluta stéttarfélaga. Fyrir vikið sé auðvelt að stilla málum upp sem Halldór Benjamín á móti Sólveigu Önnu.
„Það er meiri harka í orðræðunni. Það helgast kannski af því að Efling er ein í þessum viðræðum en ekki SGS og VR líka. Því er meiri fókus á þeim tveimur Sólveigu og Halldóri.
En hver er að vinna að vinna áróðursstríðið?
„Ætli báðir aðilar hafi ekki bara gert þetta vel og talað inn í sína lykilhópa sem þeir þurfa að tala við,“ segir Grétar.