Jarðskjálfti af stærðinni 3,2 mældist í Mýrdalsjökli klukkan 14.36 í dag. Skjálftinn er sá stærsti sem riðið hefur yfir í jöklinum síðustu daga.
Níu jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í gær, en þar af mældust sjö upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi.
Stærsti skjálfti gærkvöldsins mældist 2,6 að stærð.
„Þetta er Mýrdalsjökull og þá fylgjumst við alltaf vel með,“ sagði Einar Bessi Gestsson jarðfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni í kjölfar skjálftans nú segir að jarðskjálftavirkni sem þessi sé tiltölulega algeng í Mýrdalsjökli. Síðast varð vart við álíka virkni í desember og nóvember síðastliðnum.