Staðan á dísil- og bensínbirgðum á eldsneytisstöðvum Olís og ÓB á höfuðborgarsvæðinu hefur þyngst töluvert að sögn Frosta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Olís.
Hann kveðst búast við því að almenningur geti orðið sér úti um bensín fram að helgi með tiltölulega auðveldum hætti en að þeim mun fjölga jafnt og þétt þar sem ekki verði hægt að afgreiða eldsneyti.
„Við munum ekki hafa mikið svigrúm til dreifingar á Reykjanesi og á Vesturlandi í þessari viku, en við gerum okkar allra besta til að halda sem mestu gangandi,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að staðan sé betri á Suðurlandi.
Almennt séð er meira krefjandi að sögn Frosta að halda uppi dísilbirgðum heldur en bensíninu.
Birgðir af báðum tegundum hafa klárast á tveimur stöðum, annars vegar við Fjarðarkaup og hins vegar í Bæjarlind. Þá hefur önnur hvor tegundin klárast á þó nokkrum stöðvum enn sem komið er.
„Dísillinn er búinn á Fitjum í Njarðvík og Suðurhellu á Hafnarfirði og Gullinbrú. Svo er bensín búið á Ánanaustum. En þetta verður þannig í þessari viku þar sem jafnt og þétt munu fleiri birgðir tæmast, það er að segja dreifingarmöguleikar okkar eru engan veginn nægjanlegir til að anna hefðbundinni eftirspurn. Það er þó erfitt að segja nákvæmlega hvenær þetta verði virkilega krefjandi.“
Enn er hægt að verða sér úti um dísil eða bensín á höfuðborgarsvæðinu hjá Olís og ÓB. Hversu lengi sú staða verður uppi er þó ómögulegt að segja til um að sögn Frosta.
„Við höfum reynt að halda sem mestu í almennum rekstri hjá okkur. En þegar þetta fer að verða þannig að það er orðið erfiðara að finna sér eldsneyti, þá setjum við af stað þessar undanþágustöðvar okkar. Það verður auðvitað ekkert mál að fylla á þær þegar þær hafa verið gerðar að undanþágustöðvum.“
Aðspurður kveðst hann sjá fram á að almenningur muni geta orðið sér úti um eldsneyti fram að helgi.
„Ég held að það verði alveg vel fram í vikuna og sjálfsagt fram að helgi, að minnsta kosti þannig að þú átt að geta fundið þér eldsneyti einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þú verður bara að fylgjast vel með og við erum með upplýsingar um þetta á heimasíðu okkar – hvar er hægt að sækja sér eldsneyti, en þeim mun fjölga geri ég ráð fyrir jafnt og þétt þar sem ekki verður hægt að afgreiða eldsneyti.
Það samt ekki þannig að almenningur verði að detta í eitthvað óðagot. Það er ágætt að sjá að stemningin hefur verið öðruvísi núna en hún var í fyrra verkfallinu. Það er minna um að fólk sé að hamstra eða að það sé að hafa of miklar áhyggjur af þessu.“