Viðburðarík vika fram undan í deilunni

Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, …
Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson og Sólveig Anna Jónsdóttir eru í forsvari. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að ekkert hafi breyst hjá ríkisstjórninni um helgina og hún hafi ekki rætt um aðgerðir gegn boðuðum verkföllum Eflingar og verkbanni SA. „Sögulega hefur það því miður gerst allt of oft en við erum ekki komin á þann stað enn þá,“ segir Bjarni spurður hvort búast megi við því að ríkisstjórnin stígi inn í kjaradeiluna.

Von er á nokkrum vendingum í deilunni í vikunni, en mál Alþýðusambands Íslands (ASÍ) gegn Samtökum atvinnulífsins (SA) vegna verkbannsins verður þingfest í Félagsdómi í dag klukkan 16.15 en eins og kunnugt er ákvað ASÍ að stefna SA til þess að fá verkbann gegn félagsfólki Eflingar ógilt. Mál Ólafar Helgu Adolfsdóttur verður einnig tekið fyrir í Félagsdómi í dag, en það snýst um miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar, sem félagsfólk í Eflingu hefur ekki fengið að kjósa um.

Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son for­seti ASÍ sagði í samtali við Morgunblaðið að hann væri sannfærður um að Félagsdómur myndi dæma ASÍ í vil. Bæði Kristján og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA búast við að vænta megi niðurstöðu frá dómnum á miðvikudag vegna mikilvægis þess að niðurstaða berist áður en verkbann skellur á. „Sam­kvæmt lög­un­um ber Fé­lags­dómi að bregðast hratt við og koma með niður­stöðu fyr­ir þann tíma­,“ sagði Kristján.

Kristján tók jafnframt fram að ASÍ hefði ekki stefnt SA vegna pressu frá Eflingu. „Þetta er mál sem þarf að fara í. Þetta er risa­stórt mál sem snert­ir grund­vall­ar­atriði fyr­ir launa­fólk á Íslandi.“

Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari, hefur ekki boðað fund vegna kjaradeilunnar í vikunni en hefur verið í stöðugu sambandi við báða deiluaðila yfir helgina. „Það er ekki frá neinu nýju að segj­a,“ sagði Ástráður í sam­tali við Morgunblaðið.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert