Kröftugur hagvöxtur í fyrra

Reykjavík.
Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Niður­stöður þjóðhags­reikn­inga fyr­ir árið 2022 benda til þess að hag­vöxt­ur, þ.e. breyt­ing á lands­fram­leiðslu á föstu verðlagi, hafi numið 6,4% og að áætlað nafn­v­irði vergr­ar lands­fram­leiðslu hafi verið 3.766 millj­arðar króna.

Miðað við áætlaðan mann­fjölda mæl­ist hag­vöxt­ur á mann 3,7%. Á fjórða árs­fjórðungi hægði á vexti hag­kerf­is­ins og aukn­ing lands­fram­leiðslunn­ar mæld­ist 3,1% miðað við sama árs­fjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyt­ing lands­fram­leiðslunn­ar á milli þriðja og fjórða árs­fjórðungs mæl­ist 2,2% að raun­gildi, að því er kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hag­stofu Íslands.

Raun­aukn­ing einka­neyslu um 8,6% á milli ára var meg­in­drif­kraft­ur hag­vaxt­ar á síðasta ári en fjár­muna­mynd­un og út­flutn­ing­ur skiluðu einnig já­kvæðu fram­lagi.

Þjóðarút­gjöld, þ.e. sam­tala neyslu, fjár­muna­mynd­un­ar og birgðabreyt­inga, juk­ust um 6,4% að raun­gildi sam­an­borið við 6,3% aukn­ingu á milli 2020 og 2021.

Fram­hald mæl­ist á kröft­ug­um vexti út­flutn­ings á fjórða árs­fjórðungi 2022 sem skýrist að miklu leyti af þjón­ustu­út­flutn­ingi. Inn­flutn­ing­ur hef­ur einnig vaxið hratt hvort sem litið er til fram­vind­unn­ar á fjórða árs­fjórðungi eða fyr­ir árið í heild, að sögn Hag­stof­unn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert