Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2022 benda til þess að hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, hafi numið 6,4% og að áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi verið 3.766 milljarðar króna.
Miðað við áætlaðan mannfjölda mælist hagvöxtur á mann 3,7%. Á fjórða ársfjórðungi hægði á vexti hagkerfisins og aukning landsframleiðslunnar mældist 3,1% miðað við sama ársfjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 2,2% að raungildi, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.
Raunaukning einkaneyslu um 8,6% á milli ára var megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári en fjármunamyndun og útflutningur skiluðu einnig jákvæðu framlagi.
Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 6,4% að raungildi samanborið við 6,3% aukningu á milli 2020 og 2021.
Framhald mælist á kröftugum vexti útflutnings á fjórða ársfjórðungi 2022 sem skýrist að miklu leyti af þjónustuútflutningi. Innflutningur hefur einnig vaxið hratt hvort sem litið er til framvindunnar á fjórða ársfjórðungi eða fyrir árið í heild, að sögn Hagstofunnar.