Miðað við þær forsendur sem ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group gefur sér við gerð skýrslu um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi er niðurstaðan sú að eldið geti orðið að nýrri efnahagslegri stoð á Íslandi.
Skýrsla erlenda ráðgjafarfyrirtækisins var unnin fyrir matvælaráðuneytið og var hún kynnt í dag. Lagareldi er yfirheiti yfir fiskeldi í sjókvíum, í landeldisstöðvum og á úthafinu ásamt ræktun og nýtingu smáþörunga og stórþörunga.
Niðurstaða skýrslunnar er að mikil tækifæri geti falist í að byggja upp lagareldi á Íslandi. Í framtíðinni gæti atvinnugreinin orðið stór hluti af íslensku hagkerfi. Breytingar á stjórnsýslu og regluverki muni styðja við að vöxtur greinarinnar geti orðið sjálfbær. Sérstaklega mikilvægt sé að laga núverandi reglu- og eftirlitsumhverfi að því markmiði að draga úr umhverfisáhrifum, sérstaklega í sjókvíaeldi. Auk þess njóti nýrri greinar, svo sem landeldi, úthafseldi og þörungaeldi, góðs af sérstökum regluramma til að greiða fyrir fjárfestingu og áætlanagerð til lengri tíma.
Í skýrslunni kemur fram það álit að með örum vexti í sjókvíaeldi sé orðinn til vísir að stórri atvinnugrein. Áfram er búist við að eftirspurn eftir afurðum aukist á heimsvísu. Ísland búi við góð náttúruleg skilyrði til áframhaldandi vaxtar. Möguleikar Íslands til verðmætasköpunar á næstu tíu árum séu því umtalsverðar.
Skýrslan er liður í að móta stefnu stjórnvalda í málefnum lagareldis á Íslandi og lýsti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ánægju sinni með vinnuna að baki skýrslunni á blaðamannafundi í dag.