„Rangt að ætla að taka út eitthvað eitt atriði“

Ganga þarf frá ákveðnum málum áður en hægt er að …
Ganga þarf frá ákveðnum málum áður en hægt er að reyna að höggva á hnútinn í deilunni. Samsett mynd

Fundurinn í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í gærkvöldi snérist um að reyna að fá deiluaðila til þess að ganga frá atriðum sem þurfa að vera frágengin til að hægt sé að leggja fram miðlunartillögu.

Er þá verið að tala um aðra þætti en launalið kjarasamninga; ýmiss konar aukamál og bókanir sem varða framkvæmdir á einstökum vinnustöðum. Til dæmis hvernig megi halda við eldri samningum eða gera minniháttar breytingar miðað við breyttar aðstæður. Allt eru þetta atriði sem eru ekki heppilegt efni í miðlunartillögu, en skipta engu að síður máli og er jafnan gengið frá áður en kjarasamningar eru undirritaðir. Þess vegna þarf að koma þeim út úr myndinni áður en hægt er að höggva á hnúta er varða grunndeiluna.

Á rúmlega fjögurra tíma fundi í Karphúsinu í gærkvöldi tókst ekki nógu vel að loka þessum hliðarþáttum og ákvað settur ríkissáttasemjari í deilunni því að slíta fundi og biðja deiluaðila um að bíða aðeins og sjá hvort ekki væri hægt að komast að einhverri lendingu. Óskaði hann því eftir því við deiluaðila að þeir tjáðu sig ekki við fjölmiðla á meðan.

Stefán brjóti gegn vinnulöggjöfinni

Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu og fulltrúi í samninganefnd, vill hins vegar meina að viðræður strandi á þúsund króna hækkun til verkafólks, líkt og fram kom á Facebook-síðu hans fyrr í dag.

„Við dagslok var það mér umhugsunarefni, hversu lengi fólk sem hefur milljónir í laun á mánuði getur rætt um eitt þúsund króna launahækkun til verkafólks - og það án árangurs!“ skrifaði Stefán og vísaði til fundarins í gær.

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA, gagnrýnir Stefán harðlega fyrir þessi skrif enda sé það í ákvæði vinnulöggjafarinnar að aðilum sé óheimilt að greina frá því sem fram fer á samningafundum án samþykkis gagnaðila. Þá hafi Stefán einnig brotið gegn þeim tilmælum sem Ástráður gaf deiluaðilum í gær um að tjá sig ekki um viðræðurnar.

Ástráður gagnrýnir Stefán harðlega fyrir skrif sín.
Ástráður gagnrýnir Stefán harðlega fyrir skrif sín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að þessi frásögn Stefáns af því sem hann telur að hafi komið fram á fundinum í gær brjóti í bága við þá reglu. Þar að auki sem hún brýtur í bága við þau vinsamlegu tilmæli sem ég lét út ganga til beggja samningsaðila að þeir reyndu að forðast eins og þeir gætu að tjá sig um málið. Vegna þess að staða málsins er mjög viðkvæm og það er mikilvægt að við reynum að koma í veg fyrir að umræðan taki af okkur völdin og eyðileggi fyrir okkur möguleikann á því að ná saman í deilunni,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.

Þá er hann ósammála því að frásögn Stefáns sé rétt frásögn af því sem bar á milli aðila.

„Það voru mörg atriði sem þurftu að spila saman og það er rangt að ætla að taka út eitthvað eitt atriði og halda því fram að það hafi ráðið einhverjum úrslitum. Það bara er ekki þannig.“

Líklega ekki boðað til fundar í dag

Ástráður stórefast um að hann boði deiluaðila á fund í dag, en segist halda samtali við alla á meðan hann reynir að finna út úr því hvernig megi útfæra mögulega miðlunartillögu.

Það þýðir þó ekki að miðlunartillagan muni taka til fleiri atriða en launaliðarins. Samtök atvinnulífsins hafa gefið það skýrt út að í þeim skammtímasamningum sem verið er að gera verði aðeins tekið á launalið kjarasamninga.

„Það er mikið frekar þannig að það séu atriði sem þurfa að vera frágengin á milli aðila til þess að koma við miðlunum um þessi grunnatriði,“ útskýrir Ástráður.

„Þetta snýst um að aðilar séu búnir að sammælast um að loka einhverjum öðrum þáttum sem þeir hafa ekki fram að þessu fengist til að ræða mikið um.“

Ástráður er í samtali við deiluaðila þó væntanlega verði ekki …
Ástráður er í samtali við deiluaðila þó væntanlega verði ekki boðað til fundar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sama vandamálið komi ekki upp aftur

Í lok janúar lagði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari sem sagði sig frá deilunni, fram miðlunartillögu en hún fór aldrei í atkvæðagreiðslu því Efling neitaði að afhenda félagaskrá sína, sem er ígildi kjörskrár.

Landsréttur úrskurðaði að Eflingu bæri ekki að afhenda gögnin og þar við sat, þar sem Aðalsteinn og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gerðu með sér samkomulag um að fara ekki með málið fyrir æðra dómstig. Ef Ástráður hins vegar leggur fram nýja miðlunartillögu á næstu dögum, þá mun hún ógilda eldri miðlunartillögu.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Ástráður að eitt að því sem yrði að tryggja ef ný miðlunartillaga yrði lögð fram, að sama vandamálið kæmi ekki upp aftur. Þá þyrfti sáttasemjari að hafa einhverju vissu fyrir því að hann fengi báða aðila til að taka miðlunartillöguna til afgreiðslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert