Sögulegt úrslitakvöld fram undan

Ingibjörg Steinunn Einarsdóttir, Katla Ólafsdóttir og Oddur Sigurðarson skipuðu sigurlið …
Ingibjörg Steinunn Einarsdóttir, Katla Ólafsdóttir og Oddur Sigurðarson skipuðu sigurlið MR í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Annar þeirra tveggja skóla sem munu mætast í úrslitum Gettu betur, verður hvorki af höfuðborgarsvæðinu né Akureyri. Er þetta í fyrsta skipti sem skóli utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar, keppir til úrslita frá fyrsta ári keppninnar árið 1986, en þá sigraði FSu.

Fjórir skólar eru komnir í undanúrslitin, Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu), Verkmenntaskóli Austurlands (VA), Menntaskólinn í Reykjavík (MR) og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (FG).

MR og FG mætast næsta föstudag, en FSu og VA mætast viku síðar, eða 10. mars. Skólarnir sem sigra keppa svo á úrslitakvöldinu. Þannig er nú orðið ljóst að annað hvort FSu eða VA mun keppa í úrslitum. 

„FSu unnu keppnina þegar hún var fyrst haldin árið 1986 og voru með hörkulið, en mesta öskubuskuævintýrið væri ef að VA kæmist áfram, af því að þetta er einn af allra minnstu framhaldsskólum landsins,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og Gettu betur sérfræðingur, í samtali við mbl.is.

Stefán var í sigurliði MR í Gettu betur árið 1995. Árin 2004 og 2005 gegndi hann sjálfur stöðu dómara í keppninni.

„Erfitt fyrir landsbyggðarliðin“

FSu komst síðast í undanúrslit árið 2019, en VA hefur ekki keppt í undanúrslitum síðan árið 2002.

„Ég myndi hallast að því að VA væri með sigurstranglegra lið núna ef horft er á frammistöðuna en þetta virðast nú samt vera býsna jöfn lið,“ segir Stefán.

„Þetta er mjög gleðilegt af því að þetta er erfitt fyrir landsbyggðarliðin. Þú þarft að hafa þjálfara en þau missa þá oft í bæinn. Þú þarft að byggja upp svo mikla hefð í tengslum við þetta. Egilsstaðir voru orðnir mjög öflugir fyrir nokkrum árum og voru nokkuð reglulegir keppendur í undanúrslitum.“

Stefán segir keppnina hafa tekið breytingum á síðustu árum.

„Þetta var einsleitara. Keppnin var orðin mjög fyrirsjáanleg, maður gat nokkurn veginn giskað rétt á það hvaða lið væru að fara í sjónvarpið, sömu stóru Reykjavíkurskólarnir ár eftir ár. Það er aðeins búið að vera að breytast allra síðustu ár.“

Stefán Pálsson var í sigurliði MR í Gettu betur árið …
Stefán Pálsson var í sigurliði MR í Gettu betur árið 1995. Ljósmynd/mbl.is

Stytting framhaldsskólanna hafi áhrif

Telur hann styttingu framhaldsskólanna úr fjórum árum í þrjú hafa haft áhrif á þróun keppninnar.

„Styttingin hefur haft þá þýðingu að það er ekki hægt að byggja upp alveg sömu maskínurnar eins og var orðið hjá mörgum skólum. Fyrir okkur sem liggjum yfir þessari tölfræði er alltaf gaman að sjá ný lið fara langt.“

Hann segir það nokkuð óvanalegt að sjá tvo skóla af landsbyggðinni í undanúrslitum í seinni tíð.

„Landsbyggðarskólarnir eru svo miklu fámennari, utan Akureyrar. En þó að skólinn sé stór er það ekkert endilega ávísun á mikla velgengni.“

Þá sé það áhugavert að skólar eins og Kvennaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskólinn hafi ekki komist í undanúrslit í ár.

„Maður tekur til dæmis eftir því að Menntaskólinn við Hamrahlíð fór ekki einu sinni í sjónvarpið, það er nú stórveldi í þessari keppni sögulega séð. Á meðan sér maður að í seinni tíð er FG kominn rækilega á kortið sem einn af stóru Gettu betur skólunum, sem hann var ekki.“

Veðjar á MR og VA í úrslitum

Stefán veðjar á að MR og VA mætist í úrslitum.

„Ég hefði mjög gaman af því að sjá MR og VA mætast í úrslitum og ekki þætti mér það lakara heldur ef sjónvarpið myndi bara fara með það austur, sem ég hef nú samt litla trú á. Það er það sem ég sakna í seinni tíð að RÚV hefur ekki verið að leggjast í ferðalög með keppnina en það var áður stór hluti af stemningunni þegar farið var í íþróttahús einstakra skóla.“

En síðasta föstudag var tilkynnt að úrslitakeppnin í ár verði í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

„Einhver almagnaðasta Gettu betur keppni í sögunni var úrslitakeppnin árið 1992 þegar MA og VMA kepptu fyrir troðfullu íþróttahúsinu á Akureyri. Ég held að þar hafi verið í kringum þrjú þúsund manns, ekkert bara nemendur skólanna heldur líka annað fólk úr bænum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert