Karlmennirnir fjórir sem handteknir voru vegna stunguárásar við mathöllina Höfða í gær hafa verið látnir lausir í kjölfar skýrslutöku. Mennirnir eru allir á tvítugs- og þrítugsaldri. Áverkar mannsins sem var stunginn reyndust ekki jafn alvarlegir og talið var í fyrstu.
Þetta staðfestir Stella Mjöll Aðalsteinsdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Hún segir þann sem slasaðist í átökunum hafa verið stunginn í lærið. Viðkomandi sé nú laus af sjúkrahúsi og úr haldi lögreglu.
Ekki sé orðið skýrt hvort að mennirnir hafi þekkst fyrir. Enn sé verið að fara yfir framburði vitna og sakborninga.
Fyrsta tilkynning vegna málsins barst lögreglu upp úr klukkan tvö í gær.
„Fyrsta tilkynning er um slagsmál og svo koma fljótlega upplýsingar frá vettvangi, að það sé alla vega einn aðili blóðugur þarna og svo fer þetta að vinda upp á sig,“ segir Stella.