Verkfall og bensínskortur virðist ekki hafa haft nein eftirtektarverð áhrif á umferð bíla í landinu. Þetta segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni í samtali við mbl.is.
Friðleifur Ingi kveðst ekki hafa séð nein mælanleg áhrif af verkfalli á umferð en að of snemmt sé að fullyrða um það.
Hann segir að það þurfi meiri mun til þess að geta sagt strax til um hvort um bein áhrif af verkfallinu sé að ræða. „Við gátum sagt til um þetta út af COVID vegna þess að þá var svo gífurlega mikill munur,“ segir hann en í faraldrinum hafi umferð minnkað um allt að 40% milli vikna.
Hann segir að á þessum árstíma sé umferðin lítil en aukist yfirleitt er nær dregur sumri.
„Yfirleitt er umferðin að aukast. Hún er minnst eftir áramótin og hægt og rólega eykst fram eftir ári og nær kannski hámarki í maí og aftur september,“ segir hann. Svo fækki bílum aftur á sumrin vegna sumarfría.
Greint var frá því á mbl.is í gær að farþegum Strætó hafi fjölgað seinustu mánuði en ekki er víst hvort verkföll eða bensínskortur hafi nokkuð með þá aukningu að gera.