Yrði svipað og eldgos í Þingvallavatni

Stór vök hefur myndast á Öskjuvatni.
Stór vök hefur myndast á Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Ef basalt­gos, eins og varð í Öskju árið 1961, hæf­ist á botni Öskju­vatns yrði það gos svipað og gosið sem myndaði Sand­ey í Þing­valla­vatni fyr­ir 2.000 árum.

Þekkt­ara af því tagi er þó Surts­eyj­argosið, sem hófst á 130 metra dýpi í sjón­um suðvest­an við Vest­manna­eyj­ar haustið 1964.

Um þetta rita þeir Ármann Hösk­ulds­son eld­fjalla­fræðing­ur og Sig­urður Steinþórs­son, pró­fess­or emer­it­us, á vís­inda­vef Há­skóla Íslands.

Kort­lagn­ing sýn­ir bólstraberg

„Meðan gosopið var ennþá neðan­sjáv­ar og sjór hafði aðgang að því, hlóðst upp gíg­ur úr túffi (mylnsnu af basalt­gleri), en þegar lokaðist fyr­ir vatnið tók hraun að renna. Áhöld voru um það hvort bólstraberg hafi mynd­ast á hafs­botni í upp­hafi goss­ins — bor­un gegn­um túffið árið 1979 átti meðal ann­ars að skera úr um það en eng­in merki fund­ust um bólstraberg,“ skrifa þeir um Surts­eyj­argosið.

Kort­lagn­ing hafs­botns­ins um­hverf­is Surts­ey sýni þó að bólstraberg hafi mynd­ast í upp­hafi eld­goss­ins í Surts­ey og Jólni.

Áhrif vatns­ins hafi verið þau ein að hraðkæla kvik­una sem þegar sé far­in að freyða, eða mynda gas­ból­ur við það að vatn og kolt­ví­sýr­ing­ur leys­ist úr upp­lausn, og sundr­ast kvik­an því við snert­ingu við vatnið.

Bólstra­hraun kynni að renna

Bent er á að Öskju­vatn telj­ist vera 1,2 rúm­kíló­metr­ar að rúm­máli, eða sem sam­svar­ar ten­ingi sem er 1.063 metr­ar á hvern kant.

Því þyrfti mikla orku til að breyta vatn­inu í gufu. Aft­ur á móti kynni bólstra­hraun að renna á botni vatns­ins í upp­hafi goss vegna þess hve djúpt það er, eða allt að 217 metr­ar.

Lág­marks rúm­mál basalt­kviku sem gæti eimað Öskju­vatn allt upp væri um 0,8 rúm­kíló­metr­ar, miðað við 100% ork­u­nýt­ingu.

Til sam­an­b­urðar er hraunið, sem rann við elds­um­brot­in í Holu­hrauni árið 2014, metið 1,36 rúm­kíló­metr­ar að stærð.

Þeytigos myndi keyra kvik­una upp

„Ef hins veg­ar yrði þeytigos í botni Öskju­vatns af því tagi sem varð í Öskju 1875 eða í Heklu 1947 myndi kraft­ur­inn í gos­inu keyra gos­mökk­inn og þá kvik­una að mestu upp úr vatn­inu. Vik­ur, svo full­ur af loft­ból­um að hann flýt­ur á vatni, mynd­ast, og bæði þeyt­ist upp í loftið og flýt­ur um vatnið.

En mynd­un vik­urs­ins hefði ekk­ert með Öskju­vatn sjálft að gera, held­ur freyðir hin kís­il­ríka bráð svo mjög vegna þess hve mikið vatn er upp­leyst í henni, jafn­vel allt að 5% af þunga bráðar­inn­ar miðað við 0,5% í basalt­bráð. Slíkt eld­gos þyrfti að vera stærra en 1,3 rúm­kíló­metr­ar til að eima Öskju­vatn burt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert