Bjartsýnn á að aðilar sætti sig við niðurstöðuna

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, ræddi …
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, ræddi við fjölmiðla eftir að hafa kynnt nýja miðlunartillögu í dag. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir hljóðið almennt vera gott í félagsmönnum SAF gagnvart málinu. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Kristinn Magnússon

„Það er gott að það er komin fram einhver möguleg lausn en svo er atkvæðagreiðslan um þá lausn eftir beggja megin.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, inntur eftir viðbrögðum við nýrri miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins en öllum yfirstandandi verkfallsaðgerðum Eflingar var frestað frá klukkan 12 á hádegi í dag í kjölfarið og starfsfólk hótelanna farið að streyma aftur til vinnu.

„Miðað við það upplegg sem ríkissáttasemjari leggur fram þá held ég að við getum nú reynt að vera bjartsýn á það að báðir aðilar geti sætt sig við niðurstöðuna,“ segir Jóhannes.

Hann segir hljóðið almennt vera gott í félagsmönnum SAF gangvart því að búið sé að afstýra því ástandi sem hafði teiknast upp í kjaradeilunni. 

„Það er sérstök ánægja fyrir okkur í ferðaþjónustunni og þau fyrirtæki sem verið hafa undir verkföllum undanfarnar vikur að þeim sé nú aflétt, það er sérstakt gleðiefni. Nú er hægt að fara að vinna aftur á einhvern eðlilegan máta.“

Beint tekjutjón af verkföllum nemur yfir milljarði króna

Jóhannes segir beint tekjutjón, sem verður á meðan verkföll standa yfir, hafa minnkað þó enn sé heilmikil vinna eftir út frá því tjóni sem orðið hefur og hann segir ýmis áhrif muni endast eitthvað áfram.

„Það er að minnsta kosti mjög jákvætt að verkföllum sé aflýst og að verkbann muni ekki taka gildi. Þetta er í raun mjög jákvæð staða að þessu leyti.“

Jóhannes segir mjög erfitt að meta það tjón sem orðið hefur innan hótelana í heildina litið.

„Við getum þó held ég með nokkurri vissu sagt að beint tekjutjón nemi yfir milljarði króna. Það er þá bara tekjutap vegna afbókana og ýmiss slíks í fyrirtækjum í allri keðjunni. Aðra þætti er erfiðara að ná utan um og meta.“

Þar er vísar hann til ýmiss kostnaðar sem hefur orðið til og þess að viðskiptasambönd hafi skaðast og fleira.

„Það er í raun nánast ómögulegt að ná utan um þessa þætti í heildina litið til að festa niður á einhverja ákveðna tölu en það er ljóst að það eru verulegir fjármunir í spilunum,“ segir Jóhannes.

Allir ánægðir að það sé lausn í sjónmáli

Aðspurður um hljóðið starfsfólki hótelanna segir hann að félagsmenn SAF hafi allan þennan tíma verið í ágætis samskiptum við sitt fólk víða í keðjunni.

„Ég held að það séu bara allir ánægðir með að það sé einhver lausn í sjónmáli. Það er takturinn hefur manni heyrst svona yfir borðið,” segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert