Lögregla var kölluð til vegna einstaklings sem kastaði af sér þvagi á lóð í leikskóla í Breiðholti. Brást hann illa við afskiptum lögreglu og hrækti og sparkaði að lögreglumönnum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregla var einnig kölluð til vegna aðila með byssu í austurborginni en það reyndist vera „dótabyssa“ að því er segir í dagbók lögreglu.
Lögregla þurfti að vísa gesti út af læknamiðstöð í Hólahverfi í Breiðholti, þar sem hann var með yfirgang og frekju.
Þá sinnti lögregla mörgum verkefnum í tengslum við innbrot og þjófnaði, ýmist í miðbænum, Kópavogi og austurborginni.