Efling rekur málavexti og sendir aðilum tóninn

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur átt ansi mörg samtöl …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur átt ansi mörg samtöl við fjölmiðla á undanförnum vikum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efling sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna miðlunartillögu setts ríkissáttasemjara. Í yfirlýsingunni rekur Efling málavexti kjaradeilunnar og sendir hinum og þessum aðilum máls tóninn.

Miðlunartillaga setts ríkissáttasemjara uppfyllir skilyrði laga um að ráðgast hafi verið við aðila og að samningaviðræður séu fullreyndar, samkvæmt yfirlýsingunni, annað en miðlunartillaga ríkissáttasemjara frá 26. janúar gerði.

Barist við ofurefli

Efling segist hafa barist við ofurefli mánuðum saman eftir að SGS-samningurinn svo kallaði var samþykktur í desember því þá hafi önnur stéttarfélög, SA og ríkissáttasemjari lagst á eitt um að þvinga Eflingu til samþykktar á þeim samningi óbreyttum.

Félagið segist hafa talið samninginn fela í sér of lágar hækkanir miðað við verðbólgu, metafkomu fyrirtækja og húsnæðiskostnað sem sligi félagsfólk Eflingar mun meira en verkafólk annars staðar á landinu. Þá segir félagið að á síðustu vikum hafi fulltrúar stéttarfélaganna, sem undirrituðu SGS-samninginn, sjálfir bent á að forsendur þeirra samninga hafi reynst rangar og að samningarnir hefðu átt að vera betur tryggðir gegn verðbólgu.

Efling segist hafa lagt fram tilboð 29. nóvember, 21. desember og 8. janúar þar sem samninganefnd færði sig nær viðsemjanda sínum en segir SA enga viðleitni hafa sýnt til að eiga í samningaviðræðum í góðri trú.

Ósómi sem fólst í lögbrotum ríkissáttasemjara

Þá segir í yfirlýsingunni að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hafi engar tilraunir gert til að stuðla að slíkum viðræðum, og að hann hafi látið sig vanta á vinnufund sem hann boðaði sjálfur milli jóla og nýárs þar sem meta átti svigrúm til aðlögunar SGS-samningsins að samsetningu og aðstæðum félagsmannahóps Eflingar.

Í stað þess að beita sér fyrir umræðum um efnisatriði og málamiðlanir hafi hann kosið að þröngva miðlunartillögu upp á Eflingu þann 26. janúar en félagið segir tímasetningu tillögunnar augljóslega hafa verið hugsaða til að hamla því að boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga á hótelum Íslandshótela gætu hafist.

Þvert á lög vanrækti Aðalsteinn allt samráð við Eflingu samkvæmt yfirlýsingunni, áður en hann lagði fram tillögu sína og vanrækti jafnframt að leiða deiluaðila saman til eiginlegra samningaviðræðna. Jafnframt taldi félagið embætti ríkissáttasemjara skorta heimild til að krefja félagið um afhendingu kjörskrár.

Efling segir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra vinnumarkaðsmála hafi ekki viljað hitta fulltrúa félagsins til viðræðna um miðlunartillöguna, heldur hafi fremur kosið að fara til útlanda.

Kenndu lögunum um en ekki lögbrjótinum

Þá segir Efling að Guðmundur Ingi og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi aldrei viðurkennt þann ósóma sem fólst í lögbrotum embættis ríkissáttasemjara gegn verka- og láglaunafólki, eins og það er orðað heldur einungis rætt um nauðsyn þess að breyta vinnumarkaðslöggjöfinni.

Efling furðar sig á því fulltrúar meirihlutans á löggjafarþingi Íslendinga bregðist við lögbrotum með því að kenna lögunum um, fremur en að beina sjónum að þeim sem lögin brýtur samkvæmt staðfestri niðurstöðu dómstóla.

Þá segir jafnframt í yfirlýsingu Eflingar að mótmæli fyrir utan ráðherrabústaðinn þann 10. febrúar hafi leitt til þess að formaður Eflingar og fulltrúar Eflingarfélaga fengu viðtal við forsætisráðherra sem hafi sýnt kröfum og aðstæðum Eflingarfélaga sama tómlæti við það tækifæri og við öll önnur tækifæri sem henni hafa gefist til að tjá sig um sögulega baráttu láglaunafólks í þessari kjaradeilu.

Á bilinu 0 til 10 þúsund krónur hafi munað

Þá er vikið að viðræðum Eflingar og SA eftir að settur var sérstakur ríkissáttasemjari yfir deiluna. Efling segist hafa teygt sig eins langt og mögulegt var og sýnt mikla lausnamiðun og samningsvilja sem þó hafi ekki dugað til og SA hafi siglt viðræðum í strand þrátt fyrir að litlu munaði.

Tiltekið er að aðeins á bilinu 0 til 10 þúsund krónur hafi munað í starfsaldursþrepum samanborið við SGS samninginn.

Nýr og ógeðfelldur kafli í sögunni

Efling ræðir ákvörðun SA að boða til verkbanns á alla Eflingarfélaga á almennum vinnumarkaði og segir tilganginn með því hafa verið að tæma vinnudeilusjóð Eflingar, að hræða Eflingarfélaga til hlýðni og að þrýsta á stjórnvöld að taka afstöðu með SA í kjaradeilunni.

Þá segir að Efling hafi lýst því yfir frá fyrsta degi að vinnudeilusjóður félagsins yrði ekki nýttur til að fjármagna þetta níðingsverk, eins og það er orðað en þá hafi komið í ljós miklir brestir í röðum atvinnurekenda, sem unnvörpum lýstu sig óbundna af verkbannsboðuninni.

Efling kallar framlagningu verkbanns SA tilraun til að marka upphaf nýs og ógeðfellds kafla í sögu íslensks vinnumarkaðar og segir hana seint muni gleymast.

Umbreytingu Eflingar í baráttusamtök verður ekki snúið við

Í niðurlagi yfirlýsingar sinnar lýsir Efling miklu stolti af einingu, baráttuvilja og hugrekki Eflingarfélaga.

„Sú barátta er gegn óréttlátu þjóðfélagsskipulagi. Hún hefur öðlast mátt til að verða raunverulegt hreyfiafl breytinga í íslensku samfélagi. Með baráttu síðustu mánaða hefur félagið staðfest að umbreytingu þess í baráttusamtök verður ekki snúið við.

Félagið hvetur félagsfólk til að greiða atkvæði, kynna sér efni miðlunartillögunnar og taka sjálfstæða afstöðu til hennar í atkvæðagreiðslu.

Efling – stéttarfélag mun halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti til handa verka- og láglaunafólki, þar sem félagsfólk eru fjölmenn, sameinuð og sýnileg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert