Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir félagið tilbúið að sætta sig við miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Tillagan nú sé ólík fyrri tillögu í ljósi þess að nú hafi verið búið að reyna á samningsréttinn. Hún telur engan geta verið ánægðan með að tillögu ríkissáttasemjara hafi þurft til að deiluaðilar næðu saman.
„Það er komið til móts við Eflingu í því að þernurnar hækka um einn launaflokk og til verður nýtt starfsheiti fyrir þær. Í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins neituðu að gera samning við Eflingu þá er þetta staðan sem upp kom og við erum tilbúin að sætta okkur við hana,“ segir Sólveig Anna.
Ætlið þið þá að hvetja ykkar fólk til að samþykkja tillöguna?
„Ég mun bara upplýsa félagsfólk um atriði miðlunartillögunar. Svo kýs fólk bara eins og því finnst best að gera,“ segir Sólveig Anna.
Hún segir að krafan um að þernur myndu hækka um einn launaflokk og breytt starfsheiti hafi verið rædd í kjaradeilunum. Það hafi náðst í gegn sem og krafa um hærri greiðslur vegna þeirra sem keyra með hættuleg efni, samanber það sem fylgir starfi bílstjóra Olíudreifingar.
Hvernig líður þér með þetta? Ertu sátt?
„Ég held að enginn geti verið ánægður með að þessi leið sé farin í kjaradeilu. Niðurstaða eftir samningsviðræður á að vera undirritaður kjarasamningur þar sem deiluaðilar hafa komist að samkomulagi. Það vildi samningahópur Eflingar en SA neitaði hins vegar að virða sjálfstæðan vilja Eflingarfólks. Því kom þessi staða upp. Í ljósi þessarar stöðu vorum við tilbúin að fallast á að þessi leið yrði farin,“ segir Sólveig Anna.
Nú er samningurinn í meginatriðum eins upp settur og miðlunartillaga Aðalsteins Leifssonar sem endaði í málsókn. Er eitthvað öðruvísi form á þessu?
„Það er augljóst að fyrri miðlunartillagan var ólöglega fram komin því engin tilraun hafði verið gerð til þess að ráðgast við Eflingu. Því var það afstaða félagsins að þetta væri ólöglega fram sett tillaga. Af þeim sökum mátum við það sem svo ekki væri skylda að bera fram kjörskrána. Við fengum ekki að reyna á samningsréttinn áður en sú sama staða er ekki uppi núna. Efling mun því fara að lögum og bera tillöguna undir félagsfólk,“ segir Sólveig Anna.