Slökkvilið er enn að störfum við hús á Tálknafirði þar sem eldur kviknaði í morgun, verið er að reykræsta og slökkva í glæðum. Enginn slasaðist en slökkviliðið svipast nú um eftir heimiliskettinum sem talið er að hafi náð að forða sér út um glugga.
Slökkvistarf mun halda áfram í einhverja klukkutíma að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra í Vesturbyggð. Vettvangur verði síðan afhentur lögreglu til rannsóknar þegar hann er talinn öruggur.
Spurður hvort brennuvargur sé mögulega á ferðinni um Tálknafjörð segir Davíð svo ekki vera. Síðustu fjórar vikur hafa verið mjög annasamar hjá viðbragðsaðilum á svæðinu, Davíð nefnir krapaflóð og stórbrunann á starfssvæði fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish meðal annars, og hann bendir á að bruninn í dag og bruninn hjá Arctic Fish á Tálknafirði séu af svo mismunandi toga.
Þann 23. febrúar kviknaði mikill eldur í nýju húsnæði Arctic Fish á Tálknafirði. Miklar skemmdir urðu á húsnæðinu vegna brunans og einhverjar líkur eru á því að rífa þurfi húsið sem er fimm þúsund fermetrar.
„Almennt á svæðinu eru ekki nema fimmtán til tuttugu útköll á ári og eitt þeirra alvarlegt. Þetta er frekar mikil hrina sem hefur komið yfir okkur núna,“ segir Davíð og játar því að mun meira hafi verið um verkefni og útköll heldur en í venjulegu árferði.