Brunavarnir á Austurlandi voru kallaðar út að Unaósi í Hjaltastaðaþinghá vegna eldsvoða fyrr í dag.
Ingvar Birkir Einarsson varaslökkviliðsstjóri staðfesti þá í samtali við mbl.is að eldur væri í útihúsum við bæinn.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa um 250 kindur og í kringum tíu geitur drepist í eldsvoðanum.
Fyrsta tilkynning um eldinn barst slökkviliði frá vegfaranda sem átti leið fram hjá rétt fyrir klukkan eitt eftir hádegi í dag.
Ingvar segir að slökkvilið hafi verið komið á staðinn kl. 13.40, eða um fjörutíu mínútum eftir að tilkynningin barst.
Búið er að slökkva eldinn og brunavarnir bíða eftir að geta hafið hreinsunarstarf. Brunavarnir munu vakta svæðið fram eftir degi að sögn Ingvars.