„Fögnum þessari miðlunartillögu“

Halldór Benjamín á blaðamannafundi ríkissáttasemjara.
Halldór Benjamín á blaðamannafundi ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Halldór Benjamín Þorbergsson gerir sér vonir um að tillaga sáttasemjara verði samþykkt. Samningaviðræður hafi verið komnar í hnút og því verði að horfa á málið í því samhengi. Hann segir mikinn létti fylgja tillögunni. 
„Við fögnum þessari miðlunartillögu sem sátt hefur náðst um. Með henni eru öll SGS-félögin sameinuð í einn samning, eins og við hefðum alltaf viljað,“ segir Halldór Benjamín í samtali við mbl.is.

Fylgir línu SGS samninga 

Hann segir að miðlunartillaga ríkissáttasemjara fylgi þeirri línu sem mörkuð var í samningum við SGS félögin vítt og og breitt um landið auk samflots verslunar- og iðnaðarmanna.

„Þá verður tekið sérstaklega á stöðu afmarkaðs hóps Eflingarfélaga en í grundvallaratriðum kveður miðlunartillaga þessi á um kjarasamning sambærilegan öðrum þeim samningum sem SA hefur gert í þessari lotu,“ segir Halldór Benjamín. 

Friður augljóslega í boði

Hann segir mikilvægt eftir allt það sem gengið í kjaradeilunni, að það grundvallarmarkmið SA haldist að verja þá línu sem mörkuð var í þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir.

„Þetta eru þessar breiður línur en að öðru leyti hvet ég alla, hvort sem það eru atvinnurekendur, Eflingarfélagar eða aðrir, til að kynna sér miðlunartillöguna.“

Hann segir næst á dagskrá að setja tillöguna í dóm aðildarfyrirtækja og Eflingarfélaga.

„Ég er sannfærður um að hún muni ná fram að ganga enda tel ég að báðir aðilar hafi skynjað ákall þjóðarinnar um að láta hér staðar numið og efna ekki til frekari ófriðar þegar friður var augljóslega i boði.“

Bætt lífskjör aðalatriðið

Hann þakkar öllum sem að samningunum komu fyrir þeirra aðkomu. 

„Ég vil þakka báðum ríkissáttasemjurum og öllu starfsfólki embættis ríkissáttasemjara fyrir samstarfið í þessari lotu. Þetta er öflugt fólk.

Þá vil ég einnig þakka samninganefnd Eflingar fyrir sitt framlag til þessarar niðurstöðu. Skoðanir okkar og aðferðafræði eru ólíkar en markmið okkar þau sömu. Bætt lífskjör til langs tíma. Það er aðalatriðið. “

 Stórar áskoranir fram undan 

„Það eru stórar áskoranir fram undan. Verðbólga er sameiginlegur vágestur okkar allra. Með atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu setts ríkissáttasemjara verður óvissu á almennum vinnumarkaði eytt og það ætti að vera formsatriði að klára alla samninga á opinberum markaði.

Ég trúi ekki öðru en aðilar sem að þeim koma finni til ábyrgðar sinnar. Línan sem mörkuð hefur verið er skýr og ég tel að þjóðin sé einhuga um að hana þurfi að verja,“ segir Halldór Benjamín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert