Atli Steinn Guðmundsson
„Núna erum við að bíða eftir verktaka sem mun aðstoða okkur við að ljúka slökkvistarfinu, við þurfum að komast að síðustu glæðunum og slökkva í þeim,“ segir Ingvar Birkir Einarsson í samtali við mbl.is, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi sem í dag hafa barist við eld á bænum Unaósi í Hjaltastaðaþinghá.
Ingvar segir slökkvistarf hafa gengið nokkuð vel fyrir sig þegar allur mannskapur var kominn á staðinn en fimmtán manns komu að slökkvistarfinu og nutu Brunavarnir á Austurlandi þar liðsauka frá slökkviliðinu á Borgarfirði eystri.
Reiknar Ingvar ekki með að mannskapur á hans vegum verði á vettvangi lengi fram eftir, eitthvað fram á kvöldið telur hann þó. Ekki sé unnt að segja nokkuð um eldsupptök að svo búnu en tjónið sé tilfinnanlegt fyrir ábúendur, um 250 fjár drápust í brunanum auk tíu geita.
„Við vorum heppnir, við gátum nýtt bæjarlækinn hérna til vatnsöflunar,“ svarar Ingvar aðspurður og tekur fram að þannig séu aðstæður langt í frá alls staðar þegar til útkalla kemur. „Við förum alltaf með tankbíl með 14.000 lítra og svo fullan dælubíl þannig að við byrjum yfirleitt með 20.000 lítra, stundum er svo betra en annars staðar að komast í vatn,“ segir varaslökkviliðsstjórinn að lokum.