Greiðsla upp á 117.228 krónur, sem Vinnumálastofnun greiddi til BSH15 ehf., rekstrarfélags kynlífstækjaverslunarinnar Blush, hefur vakið athygli eftir að um hana var fjallað í hlaðvarpinu Pyngjunni.
Greiðslan er sýnileg á vef opinna reikninga ríkisins og var gefin út í október 2021.
Hlaðvarpið Pyngjan benti á þetta. BSH15 ehf. er rekstrarfélag Blush.
— Arnar Arinbjarnarson (@arnarar) February 26, 2023
Athyglisvert. pic.twitter.com/PEGRV3CdCN
Greiðslan þarf þó ekki að valda áframhaldandi titringi. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við mbl.is að einföld útskýring sé fyrir reikningnum.
„Þetta var greiðsla fyrir starfsmann í sóttkví,” segir Unnur og bætir við að styrkir til fyrirtækja vegna sóttkvíar starfsmanna hafi einfaldlega verið greiddir í gegnum þennan reikning.
Hún kveðst hafa fengið töluvert af fyrirspurnum um reikninginn. Ekkert sé þó óeðlilegt við greiðsluna enda sé Blush eitt margra fyrirtækja sem fengu styrk vegna starfsmanns í sóttkví eða einangrun, þegar faraldurinn herjaði sem verst.